149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[01:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Eins og fram kom hjá þingmanninum þá höfum við hér margítrekað ákveðnar spurningar sem ekki hafa fengist svör við og má velta fyrir sér hvort komi yfirleitt einhver svör við þessum spurningum. Það er hins vegar áhugavert og skoðunarvert í framhaldinu hvers vegna áhugi þingmanna á svo stóru máli er svo lítill. Maður veltir fyrir sér hvort að það sé bara einhvers konar leiði á þessum hrunmálum eða hvað.

Hv. þingmaður er vanur sjómaður og vanur að fást við óvissu og slíkt. Mig langar því að spyrja þingmanninn hvort það sé ekki venjan þegar menn róa til sjós að reyna að eyða allri óvissu áður en farið er af stað, reyna að vita sem mest um hvað er fram undan, kíkja á veðurspána, hafa bátinn í lagi, veiðarfærin og allt þetta, mannskapurinn sé hress og kátur og til í slaginn. Ég spyr að þessu vegna þess að mér sýnist að í þessu máli sé töluverð óvissa. Spurningum sem skipta að okkar mati máli hafa komið hér fram en ekki verið svarað. Það er hins vegar alveg ljóst að spurningum þarf að svara og gestir munu þurfa að svara að sjálfsögðu þegar nefndin kemur saman aftur til að fara yfir málið og reyna að fá svör við þeim spurningum sem við höfum borið hér upp.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort það sé eðlilegt að róa á þessi mið sem hér er verið að róa á án þess að vita í rauninni eða gera sér grein fyrir hvað er fram undan.