149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég verð að gera athugasemd við að þessir 11 eða 13 milljarðar séu enn að þvælast fyrir okkur og minna aftur á það að viðmiðið um 190 kr. á evruna átti að vera besta hugsanlega verð fyrir þá sem höguðu sér best, þ.e. ef menn strax í upphafi féllust á að taka þátt, nógu margir, þá gætu þeir í besta falli fengið verðið 190. Það er eiginlega ofrausn í því að miða við 190 þegar verið er að fást við skussana, þá sem sátu lengst eftir. Það væri þá kannski eðlilegra að hafa þetta 200 kr., þá er upphæðin sem stjórnvöld eru að „afsala sér“, svo ég vitni nú í orðbragð Vinstri grænna, töluvert meira en 23 milljarðar, aldrei lægra en það í þessum samanburði. Og ég minni á að þegar þetta 190 kr. viðmið varð til sem verðlaun fyrir þá sem myndu vera þægir, þá var gengi krónunnar jafnvel heldur veikara en það er núna.

En ég myndi líka telja rétt, af því að menn hafa verið að setja hlutina í samhengi við ýmsan kostnað hér innan lands, kostnað af verkefnum ríkisins, að taka líka með í reikninginn að í þessu tilviki er verið að afhenda erlendan gjaldeyri aðilum sem taka hann allan úr landinu. Fjárfesting hins vegar innan lands hjá ríkinu kemur að miklu leyti til baka í formi skatta, í formi umsvifa í efnahagslífinu o.s.frv. Mér finnst að það þurfi að gera þann samanburð líka. Er hv. þingmaður sammála mér um það? Eitt er há upphæð sem er bara tekin úr landinu (Forseti hringir.) og sést ekki meir, hitt er sama upphæð ef hún er sett í framkvæmdir hér heima.