149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Jú, þetta er nokkuð nákvæmt vegna þess að það lítur þannig út að núverandi stjórnvöld hafi útvistað fjármálastefnu. Við vitum það sem hér erum inni að síðustu tvenn fjárlög, þ.e. 2018 og 2019, voru ekkert annað en embættismannafjárlög. Við munum eftir því að í fjárlagagerðinni 2019, sem var ansi pínlegt, voru fjárlögin rifin af fjárlaganefnd, sendi upp í Arnarhvol og komu til baka aftur öll lemstruð og bækluð.

Það hefði engum manni með pólitískt bein í nefinu, dottið í hug að leggja fram það fjárlagafrumvarp sem kom út úr því vegna þess að það var svo gersneytt allri pólitík. Það var náttúrlega bara samið af embættismönnum og það virðist svo sem þessari ríkisstjórn sé nokkuð tamt að útvista vandamálum sem hún ræður ekki við til nafnlausra embættismanna sem þurfa ekki að bera ábyrgð á neinu, þurfa alla vega ekki að leggja störf sín í dóm á fjögurra ára fresti.