149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Við komumst vitanlega ekkert að því hver afstaða einstakra þingmanna er eða hvort þeir geti útskýrt eða hafi þekkingu á málinu vegna þess að þeir taka ekki þátt í umræðunni. Þar af leiðandi er ekki hægt að eiga samræður við þingmenn um efnisinnihald málsins eða um fyrirvara sem þeir kunna að hafa á málinu eða eitthvað annað. Auðvitað er freistandi að draga þá ályktun að menn treysti sér ekki í umræðuna vegna þess að þeir hafa ekki kynnt sér málið eða þá að eitthvað annað hangi á spýtunni sem við þekkjum ekki. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að auðvitað er saga vinstri flokkanna mjög löng þegar kemur að því að vera undirgefin erlendu valdi. Saga úr tíma nær okkur er að sjálfsögðu í fersku minni þegar reynt var einmitt að þjónka erlendu valdi með Icesave-samningum og öðru slíku. Hins vegar er undarlegt, finnst mér, að sjá flokk eins og Viðreisn stilla sér upp á sama stað nema — og þó, ég dreg þetta til baka, virðulegi forseti, því að auðvitað er Viðreisn hrifin af Evrópusambandinu, yfirþjóðlegu valdi.