149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Nei, það er ekkert í þessu sem ég hef náð að lesa fram að þessu. Auðvitað er þessi bunki sem við erum með hér bara brot af því sem búið er að skrifa um aflandskrónur og fjármagnshöft og allt það ferli. Þetta er hins vegar í ágætri tímaröð og tímaröðin passar ágætlega við það sem við þekkjum og munum frá þessum tíma. Allt heldur þetta vatni að mínu viti sem þessi ágæti blaðamaður skrifaði og það sem meira er; hann er raunar að leiðbeina á sama tíma og hann fjallar um þetta og segja: Við skulum ekki gera þetta svona. Höldum okkur við stefnuna. Stöndum fast, það mun reynast okkur betur. Það er að sjálfsögðu rétt.

Ég held hins vegar að það gagnist ekki stjórnvöldum að lesa þessar greinar hans eða þennan texta. Ég held að það sé bara búið að taka þær ákvarðanir sem á að taka. Og ef búið er að ákveða hvernig þetta mál endar þá væri a.m.k. kurteisi að fara aðeins yfir það með okkur hvers vegna menn fóru í þá vegferð. Ég held að lestur á þessu ágæta greinasafni eða fréttasafni og jafnvel þó að bunkinn væri þrefalt þykkari myndi þar engu breyta. Það er hins vegar mikilvægt upp á söguna að tengja það sem búið er að skrifa fram að þessu, tengja það sem Hörður Ægisson skrifar, það sem Seðlabankinn hefur sagt í yfirlýsingum og hvað hefur verið gert, við áætlunina um losun fjármagnshafta vegna þess að við erum enn að fást við málið. Við erum enn því miður, held ég, að sjá menn gera sömu mistökin og þeir fóru í frá miðju ári 2016 þegar eftirgjöfin byrjaði. Það er enn þá verið í sama leiðangrinum.