149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:53]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir þetta andsvar. Það er einmitt gleðilegt að fá þessa spurningu vegna þess að hv. þingmaður hefur sjálfur margoft talað um kerfisræði og embættismannaræði, völd embættismanna yfir stjórnmálamönnum og kjarkleysi eða kjark stjórnmálamanna, kjörinna fulltrúa, til að standa á eigin sannfæringu og setja sitt pólitíska höfuð að veði í sínu starfi. Þannig innréttaðir stjórnmálamenn ná yfirleitt bestum árangri þó að þeir séu stundum líka pólitískt teknir af lífi eins og dæmin sanna. Ég er algjörlega sammála þingmanninum með það. Það þarf kjark og þor, af því að við töluðum líka um stefnu og staðfestu áðan, að vera stjórnmálamaður og standa með eigin sannfæringu, eins og segir í eiðstafnum sem við skrifum undir þegar við setjumst hér að vinnu í fyrsta skipti, tala út frá eigin brjósti. Þessi þróun sem hefur orðið síðustu ár er virkilegt áhyggjuefni. Pólitíkin verður hálfpartinn í mínum huga úrkynja, ég get ekki orðað það öðruvísi í augnablikinu, og við hljótum að hafa áhyggjur af því.