149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um fundarstjórn):

Forseti. Forseti væri svo sannarlega að setja ný viðmið hér, bæði með tilliti til þess sem hann sem þingmaður áratugum saman hefur sagt í þessum ræðustól, þeirra orða sem hann hefur látið falla um aðra þingmenn, og líka vegna nýrra viðmiða sem hann væri að setja fyrir alla aðra þingmenn sem sæti eiga á Alþingi núna ef ekki væri fyrir þá staðreynd að nú hefur ítrekað komið í ljós að forseti virðist ekki láta sömu viðmið ganga yfir alla þingmenn. Með öðrum orðum er sérstaklega leitað, að því er virðist, að tilefnum til að setja ofan í við þingmenn Miðflokksins sérstaklega á meðan þingmenn annarra flokka komast margir hverjir upp með hreint ótrúlega framkomu í þingsal úr þessum ræðustól.