149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[04:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Í ljósi þess að hv. þingmaður ræddi sérstaklega um þingflokk Samfylkingarinnar taldi ég rétt að minna á að varaþingmaður flokksins, hv. þm. Einar Kárason, sat hér aðeins með okkur framan af og tók reyndar ekki til máls í ræðu, en fór í andsvar sem snerist hins vegar einmitt fyrst og fremst um það að hv. þingmaður lýsti því að hann væri ekki nógu vel inni í málinu, áttaði sig ekki nógu vel á eðli þess. Hv. þingmaður var fyrir vikið að sjálfsögðu hvattur til að fylgjast með og helst taka þátt í umræðunni. Ég held að hann hafi gert það eitthvað áfram, hlustað á eina ræðu frá mér en náði ekki að heyra þá yfirferð í heild, sem snerist um umfjöllun Seðlabankans á hverju stigi þegar verið var að bakka frá fyrri áformum. Vonandi hefur hv. þingmaður fylgst með umræðunum og einhverjir aðrir þingmenn líka til að setja sig inn í málið að því marki sem við þingmenn Miðflokksins erum færir um það. En við erum líka að spyrja spurninga. Við erum að benda á eitt og annað sem okkur þykir liggja ljóst fyrir, eins og það að þetta feli í sér algjört brotthvarf frá fyrri stefnu. En við erum líka að spyrja spurninga, ekki hvað síst: Hvers vegna? Hvers vegna ætla stjórnvöld nú með svona afgerandi hætti að hverfa frá fyrri áformum?

Er þá hv. þingmaður sammála mér að mikilvægt sé að fá svör við því áður en þessari umræðu lýkur: Hvers vegna er verið að hverfa frá fyrri áformum, (Forseti hringir.) eins og augljóslega er verið að gera?