149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:00]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það vekur auðvitað sérstaka athygli að í frumvarpinu sem hefur hér veigamikla þýðingu skuli það ekki vera upplýst í greinargerð, hafandi það í huga að Seðlabankinn mun hafa gegnt ráðgefandi hlutverki við gerð frumvarpsins. Og í fjármálaráðuneytinu er náttúrlega starfandi mikill fjöldi fólks með hagfræðilega þekkingu sem væri í færum til að koma fram með tölulegt mat á þáttum eins og þeim sem við vorum að ræða rétt í þessu, þeim fjármunum sem þar er um að tefla, og tefla fram vikmörkum, tefla fram sviðsmyndum.

Þetta á ekki bara við um þá fjárhæð sem þarna sýnist geta farið í súginn heldur á þetta líka við um möguleg áhrif á gengi, á verðlag, á vísitöluna, á gjaldeyrisforðann og svo mætti áfram telja.

Manni (Forseti hringir.) sýnist nú að það sé ekki beinlínis þannig að framfarir hafi orðið í þeim efnum að mál séu nægilega upplýst, a.m.k. á það ekki við um þetta frumvarp.