149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og langar aðeins að fá álit hans á málflutningi sem var hafður í frammi af hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrr í dag þar sem hann var þeirrar skoðunar að hér gæti verið um eignaupptöku að ræða, þ.e. að málflutningur okkar Miðflokksmanna í þessu máli fæli í sér eignaupptöku. Þetta mál var töluvert rætt á sínum tíma sem eitt af þeim tækjum sem vogunarsjóðirnir reyndu að nota til að sá fræjum tortryggni á Íslandi. Þegar haftalosun hófst árið 2016 komu yfirlýsingar frá hagsmunagæsluaðilum vogunarsjóðanna, íslenskum lögmönnum, þar sem þeir fullyrtu að þeir teldu frumvarpið andstætt stjórnarskrá og eignarrétti sjóðanna. Þeir höfðu uppi orð um það á þeim tíma að ríkissjóður væri bótaskyldur. Við þekkjum að þetta var allt saman hrakið. Eins og við þekkjum úr 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur. Hins vegar kom álit frá Davíð Þór Björgvinssyni, lagaprófessor og varaforseta Landsréttar, (Forseti hringir.) þess efnis að þetta stæðist fullkomlega það ákvæði stjórnarskrárinnar, því væri ekki verið að brjóta á þeim.

Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á þessum málflutningi.