149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

289. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvarið og fagna því hversu vel hv. þingmaður tekur í þetta góða mál og kemur mér ekki á óvart að við séum nokkuð á svipaðri línu.

Varðandi önnur mál sem beint hefur verið til forsætisráðherra er það auðvitað svo að þegar mál snerta verksvið fleiri en eins ráðherra er það kannski ekki óeðlilegt að forsætisráðherra sé falið að skera úr um það hvernig sú vinna skuli unnin.

Af því að hv. þingmaður velti aðeins fyrir sér mögulegum kostnaði sem af þessu hlytist þá er um að ræða alvöruúttekt ef rétt er að málum staðið. Ég veit að hér hefur verið oftar en einu sinni uppi sendinefnd frá OECD vegna úttekta sem þessara og Samkeppniseftirlitið hélt ágætiskynningarherferð sennilega fyrir þremur, fjórum árum eða svo um kosti úttekta sem þessara. Þá hygg ég að ég fari rétt með að áætlaður kostnaður hafi legið af stærðargráðunni 300–400 millj. kr. Það er því rétt að þetta getur falið í sér töluverðan kostnað yfir tveggja til þriggja ára tímabil sem svona úttekt færi fram á.

Hins vegar er enginn vafi á því að úttekt sem þessi getur margborgað sig og sé gríðarlega góð fjárfesting fyrir hið opinbera. Ég nefndi dæmi um Ástrali áðan og ef ég man rétt, af kynningu sem ég fékk frá OECD fyrir fjórum eða fimm árum á ávinningi Ástrala af úttekt sem þessari, þá töldu þeir varanlega aukningu hagvaxtar á ári hafa verið um 0,5–1% sem myndi þá skila sér margfalt til ríkisins aftur í gegnum skattlagningu gagnvart þeim kostnaði sem ríkið þyrfti mögulega að leggja út fyrir úttekt sem þessari.