149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

launahækkanir bankastjóra ríkisbankanna.

[10:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr stórrar spurningar: Hvað er sanngjarnt? Hvað eru sanngjörn laun og fyrir hvers konar vinnu er sanngjarnt að fá hvaða laun? Ætli við hv. þingmaður getum ekki verið sammála um að það sé sanngirni í því fólgin að fólk geti lifað af launum sínum? Ég held að við séum líka sammála um að við viljum ekki sjá of mikinn tekjumun í íslensku samfélagi. Þegar kemur að Íslandi er það nokkuð sem við getum verið ánægð með, að þegar við berum okkur saman við aðrar þjóðir, hvort sem það er í stóra samhenginu meðal OECD-þjóða eða Norðurlanda, er Ísland með mestan tekjujöfnuð af öllum þessum þjóðum. Það er gott.

Síðan birtist aðeins önnur mynd þegar við skoðum eignastöðu og ójöfnuð á því sviði. Ég er ekki með það nákvæmlega í kollinum hvar Ísland stendur í alþjóðlegum samanburði en hér er hins vegar ójöfnuður meiri á því sviði en þegar kemur að tekjum.

Til að svara hinni stóru spurningu hv. þingmanns vil ég segja tvennt: Í fyrsta lagi endurspegla tilmæli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til Bankasýslu ríkisins þar sem hann gerir verulegar athugasemdir við þær launaákvarðanir sem teknar hafa verið af stjórnum opinberra banka um launahækkanir æðstu stjórnenda. Vísar hann þar annars vegar í starfskjarastefnu stjórnvalda um hófleg laun og hins vegar tilmæli fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra frá árinu 2017 um að gæta skuli varúðar við launaákvarðanir og bendir á að verði þessar ákvarðanir ekki endurskoðaðar sé veruleg hætta á því að traust og trúnaður stjórnvalda á þessum stjórnum sé fyrir bí. Þessi tilmæli eru algjörlega skýr. Þau er ekki hægt að túlka nema með einum hætti og ég er algjörlega sammála hæstv. fjármálaráðherra í þessu bréfi. (Forseti hringir.) Þarna þurfa stjórnir þessara félaga að sýna ábyrgð í launaákvörðunum sínum af því að þau snúast líka um sanngirni.