149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:08]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta spurningu. Ég hef talið að það sé augljóst og liggi dálítið á borðinu að hægt sé að finna jafn góða eða betri lausn og mér finnst þær í raun vera í sigtinu í skýrslum ráðherra. Ég menntaði mig fyrir 35 árum í arkitektúr og skipulagsfræði og hef starfað í því síðan. Mitt helsta áhugamál er borgar- og bæjarskipulag og þróun þess. Ég byggi þessa trú mína ekki bara á innsæi heldur nákvæmlega þeirri þróun sem á sér stað allt í kringum okkur, þ.e. að borgir séu eiginlega lífrænn mekanismi, sumir segja að ef geimverur kæmu hingað niður eftir myndu þær miklu frekar skilgreina borgir sem lífverur en einstaka mannverur.

Hafnir færast, flugvellir færast og sá er gangur lífsins. Við erum kannski komin þangað í þroskasögu Íslands og þroskasögu höfuðborgarinnar að við þurfum fyrir alvöru að fara að hugsa næstu skref. En svo þurfum við líka, sem mér fannst leiðinlegt að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson gerði lítið úr, að velta þessu fyrir okkur í stóra samhenginu. Svo að ég svari seinni spurningunni. Auðvitað er ekki sama hvað hluturinn kostar, en það skiptir líka máli hvernig kostnaður er reiknaður út. Ef við reiknum bara kostnaðinn sem slíkan og reiknum ekki samfélagsleg áhrif inn í gæti talan orðið mjög há. Ég ætla að taka dæmi. Bygging á þjóðarsjúkrahúsi, sem hv. þingmaður hefur áhuga á, kostar jafn mikið og rekstur í tvö ár. Það getur falist gríðarlegur þjóðhagslegur ávinningur í því að ráðast í dýra framkvæmd ef hún skilar svo afleiddum sparnaði.