149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:32]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það var mjög gott sem kom fram í máli hv. þingmanns: Neyðarbrautinni var lokað í framhaldi af dómi Hæstaréttar 2016. Í samningnum frá því í október 2013 eru þessar tímasetningar: Norður/suður-brautin — í staðinn fyrir að loka henni 2016, eins og farið var fram á í undirskriftasöfnuninni, var framlengt um sex ár, til 2022, og síðan að allur völlurinn væri farinn 2024.

Dómafordæmi er þá komið um þetta. Þá var það bara þessi samningur sem var gerður, sem ég var sem íbúi í þessu landi aldrei sáttur við, svo að það sé algerlega kristaltært. Eðli dómsins er komið fram, hvað hann markar. Neyðarbrautinni var lokað á sínum tíma. Tímasetningin árið 2016 var framlengd til 2022. Þá á norður/suður-brautin að fara og allur völlurinn 2024. Þetta er hinn kristaltæri skilningur á málinu í heild sinni. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna á það atriði.

Maður lenti í svolitlum vandræðum því að þetta er gríðarlega flókið mál. Ég áttaði mig bara á því seint í gærkvöldi, rétt fyrir miðnætti, að málið ætti að vera á dagskrá í dag. Það gafst því enginn tími til að undirbúa sig og til að fara í gegnum þetta gríðarlega flókna og efnismikla mál yfir svona langan tíma. Þessi saga spannar ár og áratugi. En þetta er lykillinn. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé sammála mér í þessu atriði, með dómafordæmið sem er komið með neyðarbrautina — norður/suður-brautin 2022 og völlurinn allur 2024.