149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

raddbeiting kennara.

511. mál
[16:11]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Herra forseti. Það er mjög gott að tala hérna um velferð kennara í kennslustofu og er mikilvæg umræða. Gott er að skoða skapandi lausnir, minni bekkir gætu verið augljós lausn á þessu sérstaka vandamáli. En ef á að ræða endurskoðun til bóta á kennaranámi má einnig skoða önnur atriði og þá sérstaklega að efla nám í fötlunarfræði í kennaranámi.

Kennarar vinna með mjög fjölbreyttum hópi barna og eru afar misjafnlega upplýstir um svokallaðar, með leyfi forseta, „neuro-diverse“-fatlanir, sem bitnar oft illa á menntun barna. Eftir minni bestu vitund, sem er nokkuð góð, er ekkert skyldunámskeið í fötlunarfræði í kennaranámi við Háskóla Íslands.

En aukin vitund og viðurkenning meðal kennara um fjölbreyttar fatlanir nemendahóps getur haft jákvæð áhrif á starfsumhverfi kennslustofunnar, bæði fyrir kennara og nemendur. Ég vil því benda hæstv. menntamálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, á að ekki má gleyma fjölbreytileikanum ef endurskoða á kennaramenntun í HÍ.