149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

framtíð microbit-verkefnisins.

536. mál
[16:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Microbit er lítil tölva á stærð við kreditkort sem á er lítill skjár, 25 bita LED-skjár, og tveir takkar sem hægt er að ýta á. Hægt er að tengja hana við rafhlöðu og líka við straum og forrita ýmislegt inn á milli. Möguleikar og fjölbreytni tölvunnar er merkileg miðað við hversu lítil hún er og að hverjum hún er miðuð, þ.e. grunnskólanemum.

Fyrir nokkrum árum var microbit-verkefnið innleitt undir stjórn Illuga Gunnarssonar, hæstv. menntamálaráðherra á þeim tíma, og Samtaka iðnaðarins sem fjármagnaði ferlið á einhvern hátt. Þá átti að dreifa þessum litlu tölvum til allra nemenda í 6. og 7. bekk í skólum á Íslandi. Menntamálastofnun tók við verkefninu og dreifingunni og setti upp mjög gott ferli þar sem nokkurn veginn allir skólar, ef ekki allir, sem gátu tekið þátt gerðu það. Þetta var gert í samstarfi við Ríkisútvarpið og búin voru til skemmtileg lítil myndbönd sem heita Kóðinn 1.0. Ævar vísindamaður tók einnig þátt í verkefninu og bjó til þætti um forritunarsögu tölvunnar.

Hins vegar hafa heyrst raddir um að verkefnið hafi tekið einhverjum breytingum. Það getur alveg verið ágætt að breyta til og gera hlutina skilvirkari o.s.frv., en uppi hafa verið áhyggjur af því að jafnvel eigi að hætta við verkefnið. Ég hef að vísu í öðrum fyrirspurnum í hliðarherbergjum fengið fullvissu um að svo sé ekki en það eru alla vega einhverjar breytingar á því hvernig tölvunum er dreift til nemenda og hvernig á að fara í verkefnið héðan í frá. Um það er fyrirspurn mín, þ.e. hvernig verkefnið hefur þróast og hvort allir nemendur fái tölvuna til eignar eins og áður eða hvort það séu bara bekkjarsett.

Verkefnið á mjög mikla samleið með þingsályktun sem við samþykktum á síðasta þingi um stafrænar smiðjur. Þetta tæki virkar mjög vel í stafrænum smiðjum til að búa t.d. til þjarka og því um líkt. Það er því kjörið upphaf innleiðingar fjórðu (Forseti hringir.) iðnbyltingarinnar, menntalega séð, í grunnskólum og til framtíðar. Ég hlakka til að heyra álit menntamálaráðherra á framtíð verkefnisins.