149. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2019.

bætt kjör kvennastétta.

519. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Herra forseti. Við Íslendingar erum mjög stoltir af því að vera í fararbroddi þegar kemur að jafnrétti kynjanna en þrátt fyrir að margt sé með miklum ágætum í þessum málaflokki standa alltaf eftir þau ónot, getum við sagt, að þegar kemur að þeim atriðum sem að vinnumarkaðnum snúa stöndum við nágrönnum okkar, t.d. á Norðurlöndunum, talsvert að baki. Bæði erum við með kynskiptari vinnumarkað en nágrannar okkar, konur hér fá síður framgang í starfi eða til ábyrgðar en á hinum Norðurlöndunum og talsvert lægra hlutfall kvenna gegnir hér stjórnunarstöðum en þar þekkist. Og síðan er auðvitað vandi hvað varðar stöðu fjölmennra kvennastétta með hátt menntastig sem erfitt er að sjá að fái menntun sína metna til launa.

Í þessu samhengi er mjög áhugavert að skoða t.d. grunnskólakennara þar sem meðallaun samkvæmt síðustu tölum Hagstofunnar, sem eru fyrir árið 2017, eru um 550.000 kr. á mánuði á sama tíma og meðalheildarlaun á vinnumarkaðnum í heild eru um 700.000 kr. Þegar horft er á aðrar vel menntaðar stéttir, hafa verður í huga að hér er hópur starfsmanna með fimm ára háskólamenntun að baki, er þessi stétt með augljóslega umtalsvert lakari kjör ef miðað er við meðallaun í landinu en líka umtalsvert lakari kjör en aðrir háskólamenntaðir starfsmenn, hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða hinum opinbera.

Þingflokkur Viðreisnar lagði fram þingsályktunartillögu ásamt fleirum fyrir tæpu ári þar sem hvatt var til þess að farið yrði í átak til að rétta af kjör kvennastétta og efnt til sérstakra samningaviðræðna við aðila vinnumarkaðarins um hvernig mætti lyfta þessum hópum sérstaklega á grundvelli greiningar sem unnin yrði sameiginlega. Það urðu okkur töluverð vonbrigði að sú tillaga var vötnuð verulega út af hálfu þingmeirihlutans. En eftir stóð þó, getum við sagt, hænuskref í rétta átt þar sem Alþingi ályktaði að fela fjármála- og efnahagsráðherra að efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaganna um leiðir til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta og einnig að ráðist yrði í greiningu á launakjörum ólíkra starfsstétta, m.a. til þess að draga fram kynbundinn launamun og horfa sérstaklega til reynslu sveitarfélaga af starfsmati.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig standa þessar viðræður við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaganna sem Alþingi fól ráðherra að hefja? Og hver varð niðurstaða greiningar á launakjörum ólíkra starfsstétta sem þar var samþykkt að ráðast í ?