149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að eiga við mig orðastað enn einu sinni um málefni lögreglunnar. Þetta er líklega í þriðja eða fjórða skiptið sem ég á orðastað við dómsmálaráðherra um málefni lögreglunnar og ekki að ófyrirsynju, vegna þess að þó að margt hafi færst til betri áttar núna undanfarin ár — nefni ég þá sérstaklega stóreflingu á kynferðisbrotadeild lögreglunnar og rannsókn á slíkum brotum, og tölvuafbrotadeild lögreglunnar — er einn þáttur sem situr enn eftir, það er það sem við köllum sýnilega löggæslu.

Árið 2007 voru u.þ.b. 374 lögreglumenn við störf á höfuðborgarsvæðinu en árið 2017 voru þeir 307, plús náttúrlega að orðið hefur mikil íbúafjölgun á þeim tíma. Það voru sem sagt 513 íbúar á hvern lögreglumann árið 2007 en 706 árið 2017, þ.e. 30% fjölgun íbúa á hvern lögreglumann. Það er fyrir utan stórfjölgun ferðamanna til Íslands, sérstaklega hérna inn á höfuðborgarsvæðið þar sem flestir ferðamenn koma við.

Og hvað þýðir það? Það þýðir að vakt sem áður taldi 21 mann telur núna sex. Og það þýðir að þrátt fyrir það sem búið er að gerast í öðrum deildum lögreglunnar, og þá tala ég aftur um kynferðisbrotin og tölvudeildina, og með fullri virðingu fyrir því sem Schengen-samstarfið lagði okkur á herðar suður á Keflavíkurflugvelli, þá vantar okkur enn 80 lögreglumenn hér á höfuðborgarsvæðið. Hvað gera 80 menn á höfuðborgarsvæðinu? Þeir skaffa 16 menn á hverja vakt — 16 manns, þessir 80. Það kostar milljarð. Það er dýrt, en þetta eru þeir lögreglumenn sem eru bæði í þjónustu við borgarana, gæta öryggis þeirra og eru jafnvel í frumkvæðisrannsóknum. Í dag er þetta þannig að menn hafa jafnvel varla afl til þess að sinna útköllum og/eða ábendingum um ölvunarakstur, fíkniefnaakstur, um ökutæki sem hringsóla í kringum skóla í borginni. Menn hafa ekki afl í að sinna slíkum útköllum. Ef maður lendir í árekstri upp á Kringlumýrarbraut, jafnvel þar sem umferð truflast af umferðaróhappinu, þarf maður að bíða í þrjú korter eftir lögreglumanni, ef hann kemur þá á annað borð. Það er óþolandi, hæstv. dómsmálaráðherra.

Það birtist líka í öðru. Það birtist í því að vegna mannfæðar geta menn ekki farið jafn öflugir í útköll og áður var. Í útköll þar sem áður fyrr fóru jafnvel fimm saman, fara nú tveir, og annar þeirra meiðist gjarnan. Meiðsli í lögreglunni, meiðsli í liðinu eru orðin miklu meiri og almennari og algengari en áður var. Það er óþolandi. Til hvers hefur það leitt? Það hefur leitt til þess að orðið hefur flótti úr stéttinni, verulegur flótti úr lögreglumannastéttinni. Menn eru að brenna út. Þeir gera sitt besta. Og á meðan á öllu þessu stendur hlaðast upp óafgreidd lögreglumál á borðum rannsóknarlögreglumanna. Það er óþolandi ástand og við því verður að bregðast.

Þess vegna vildi ég taka þessa umræðu enn og aftur við hæstv. dómsmálaráðherra og brýna hana til þess að sjá til þess að á fjárlögum næsta árs verði myndarleg aukning til sýnilegrar löggæslu, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, þannig að því ófremdarástandi linni sem hér er núna.

Ég vil nefna eitt dæmi í viðbót. Heimilisofbeldismálum hefur fjölgað mjög mikið undanfarið. Ef slíkt tilvik kemur upp í byrjun vaktar hjá lögreglumönnum eru einn til tveir menn bundnir af því eina máli eiginlega allan vaktartímann, vegna þess að það þarf jú að taka skýrslu, það þarf að forða þolandanum og það þarf að fá ofbeldismanninn í burtu. Það tekur heila vakt. Það rýrir vaktina um einn til tvo menn. Þá eru eftir fjórir á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það verður að gera gangskör í þessum málum, hæstv. ráðherra. Það verður að gera hér alvörubót á.