149. löggjafarþing — 78. fundur,  11. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[17:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fiskeldi, frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.

Í ljósi umræðu um mikilvægi fiskeldis fyrir þau byggðarlög og fyrirtæki sem sannarlega eiga mikið undir, og hefur komið fram hér í umræðunni, og sátt um atvinnugreinina og við umhverfi og náttúru fagna ég þessu frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þarna eru sannarlega miklir hagsmunir undir eins og gjarnan vill verða. Þetta er auðvitað efnahagsmál fyrir þau svæði sem um ræðir. Þetta er atvinnumál, byggðamál í allri sinni merkingu, umhverfis- og náttúrumál og mikið undir þar til framtíðar litið. Það er þess vegna sem hæstv. ríkisstjórn tekur þetta mál sérstaklega fyrir í stjórnarsáttmála sem hluta af atvinnuuppbyggingu og uppbyggingu í sjávarútvegi, sem auðvitað stendur vel ef við skoðum sjávarútveginn sem slíkan á alþjóðavísu. Hér hefur okkur auðnast að leggja áherslu á vísindin, rannsóknir og þróun til að tryggja sjálfbæra auðlindanýtingu og það er mikilvægt að sú áhersla verði líka í fiskeldinu. Við megum ekki halda áfram án þess að tryggja að svo megi verða í þessari atvinnugrein til framtíðar.

Ég ætla að taka undir með hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni sem sagði að umhverfið og mótvægisaðgerðir skiptu hér miklu máli. Að sama skapi kom hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir inn á umhverfisþáttinn, að aðgát skyldi höfð hverju skrefi. Ég tek undir með þessum hv. þingmönnum. Og það er rétt sem hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á, hornsteinn þessa frumvarps er auðvitað í þessu ljósi áhættumatið.

Ég ætla aðeins að rifja upp það sem stendur í stjórnarsáttmála. Með leyfi forseta segir þar:

„Mikilvægt er að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir og viðhalda fjölbreytni í vaxtarmöguleikum til að tryggja afkomuöryggi þeirra.“

Þáttur strandveiða og úthlutun aflaheimilda er auðvitað lykilþáttur í því tilliti, sem og vegna byggðafestu, en uppbygging atvinnugreina á borð við fiskeldið er það jafnframt. Enn fremur segir hér, með leyfi forseta:

„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið.“

Þetta er einmitt kjarninn í frumvarpinu sem við ræðum hér, nákvæmlega þetta. Það kemur fram í greinargerð, virðulegi forseti:

„Við undirbúning þessa frumvarps var byggt að verulegu leyti á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skipaður var 30. nóvember 2016. Í skipunarbréfi hans var vísað til mikilvægis þess að skilyrði og umgjörð um fiskeldi verði eins og best verður á kosið og í sem mestri sátt við umhverfið.“

Starfshópurinn skilaði tillögum sínum með skýrslu um stefnumótun í fiskeldi í ágúst 2017. Það er í raun og veru það sem við sjáum í þessu frumvarpi. Hér er tekið á öllum þeim þáttum sem skipta máli og þeim áskorunum sem blasa við í fiskeldinu og það eru kannski fyrst og fremst þrír þættir sem blasa við, lífrænt álag, sníkjudýr og laxalúsin, og síðan erfðablöndun við villta laxastofna. Það er tekið á þessum þáttum öllum í frumvarpinu, virðulegi forseti.

Ég ætlaði rétt að koma þessum áhersluþáttum að, áherslunni á umhverfið og náttúruverndina, og láta þau lokaorð liggja að það er vilji hæstv. ráðherra, og kom mjög skýrt fram í framsöguræðu hans, og krafa okkar allra og má merkja vel á umræðunni hér að uppbygging á fiskeldi verði með ábyrgum hætti og að þróunin verði sjálfbær með áherslu á vernd lífríkis, náttúru, umhverfis og vernd villtra laxastofna. Í frumvarpinu er tekið á flestum þeirra þátta sem skipta máli til að svo megi verða.