149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skráning og mat fasteigna.

212. mál
[15:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég ætla að útskýra þá breytingu á áherslum sem nefndin leggur til að við samþykkjum. Með frumvarpinu er um að ræða ítarlegri skilgreiningu á heimildum þeim sem veita Þjóðskrá Íslands aðgang að gögnum sem eru nauðsynleg við ákvörðun matsverðs fasteigna. Sú skýra meginregla er í lögunum að leitast skuli við að finna gangverð fasteigna en nefndin telur rétt að þjóðskrá hafi aðgang að fullnægjandi upplýsingum, sem er ekki staðan í dag, til að uppfylla skyldur sínar um skráningu og framkvæmd fasteignamats og treysta lagagrundvöll til aðgangs að gögnum svo að reikna megi út markaðsverð fasteignar og tryggja rétta álagningu opinberra gjalda og annarra skatta. Eins leggur nefndin áherslu á að endurskoðun sem hefur verið í gangi á regluverkinu verði fram haldið og í fullu samráði við hagaðila og með þeirri breytingu sem við leggjum til hér er um að ræða nánari afmörkun og áherslu á fyllsta öryggi og meðalhóf.