149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[10:57]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er jákvætt að heyra af öllum þessum tugum milljarða. En nú heyrist mér hæstv. fjármálaráðherra vera að svara spurningunni sem hann vildi heyra frekar en spurningunni sem ég spurði. Ég var að tala um niðursveiflu í hagkerfinu sem vænst er og margir gera ráð fyrir. Það að þessi tiltekna frysting eigi sér stað samhliða því er mjög undarlegt. 700 milljónir eru kannski ekki massíf upphæð en það er náttúrlega bara fyrsta árið. Þetta á eftir að aukast eftir því sem á líður.

Hvað gerist árið 2022? Höfum í huga að sveitarstjórnir landsins hafa heilt yfir verið reknar með halla í sex af síðustu sjö árum. Skuldastaðan hefur ekkert batnað með mjög áberandi hætti. Hún hefur batnað mikið hjá ríkinu en ekki sveitarfélögum.

Er þetta ekki bara hin hefðbundna mantra Sjálfstæðisflokksins; samdráttur þegar vel árar, vegna þess að þá má hið opinbera ekki eyða neinum peningum, og samdráttur þegar illa árar, vegna þess að þá eru engir peningar til? Og svo er eitthvað reyndar réttlætt hér og þar eftir því sem þurfa þykir. En getum við ekki fengið (Forseti hringir.) einhverja góða hagfræðilega skýringu á því hvers vegna þessi frysting skiptir máli núna?