149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

þriðji orkupakkinn.

[15:23]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði hvort mér fyndist þetta mál eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég svaraði því neitandi. Hv. þingmaður spurði hvort hægt væri að koma í veg fyrir að þingið tæki ákvörðun um sæstreng. Ég legg til í anda fulltrúalýðræðis að það sé einmitt Alþingi sem ákveði hvort hingað verði lagður sæstrengur eða ekki, en einnig í anda fulltrúalýðræðis get ég ekki bundið hendur komandi þinga um það efni. Það væri mjög óeðlilegt ef ég gæti það.

Hvort ég hafi áhyggjur af því að við séum að framselja dómsvald þá skil ég ekki alveg þá spurningu. Nei, við erum ekki að framselja neitt dómsvald. Varðandi hvort við séum að framselja eitthvert vald umfram það sem við heimilum þá er svo ekki. Það er það sem við eyddum mörgum mánuðum í að láta kanna og spurðum okkar allra helstu sérfræðinga, þeir voru allnokkrir. Við spurðum meira að segja þá sem töldu á fyrri stigum að við værum að ganga of langt en þeir eru nú á þeirri skoðun eftir að hafa skoðað málið vel, að svo sé ekki. Þannig að ég átta mig ekki alveg á spurningunni, málið getur ekki orðið mikið skýrara í mínum huga.

Hvort völdin fari til ACER þá er það ekki svo. Það hefur legið fyrir frá fyrsta degi. Það er ESA sem við eigum sjálf aðild að (Forseti hringir.) og er okkar, og það er allt annað en ACER. Það sem hv. þingmaður spyr um á heldur ekki við, vegna þess að við erum ekki tengd. Það sem hún hefur mestar áhyggjur af á ekki við á meðan við erum ekki tengd. Þannig að mér líður bara mjög vel með þetta mál heilt yfir.