149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir, hún hefur líka áhyggjur af stöðunni. En ég hlýt líka að minna á að í spá Hagstofunnar fyrir þessa fjármálaáætlun er auðvitað verið að gera ráð fyrir töluverðri kólnun hagkerfisins, til að mynda hægari vexti einkaneyslu, samdrætti í atvinnuvegafjárfestingu, fækkun ferðamanna og að einhverju leyti virðist þessi spá vera að raungerast. Ég held að við eigum líka að horfa til þess að spá Hagstofunnar, nýleg spá, gerir ráð fyrir ákveðnum þáttum og það er það sem við erum að miða við í þessari fjármálaáætlun. Hv. þingmaður nefnir fyrirhugaða lækkun bankaskatts, sem við höfum ekki enn tekið afstöðu til hér á Alþingi og liggur enn ekki fyrir þinginu. En sú tillaga byggist annars vegar á fyrri áætlunum þar sem þessi skattur var settur á sem tímabundin ráðstöfun 2013, og var þá áætlað að myndi vara í fjögur ár, til að fjármagna tilteknar aðgerðir sem þá var ráðist í. Hann hefur síðan haldið sér.

Eitt af því sem er bent á, bæði í skýrslu Gylfa Zoëga, sem unnin var í aðdraganda kjarasamninga, en líka í nýlegri hvítbók um fjármálakerfið er sú staðreynd að íslenskt fjármálakerfi er töluvert dýrara en bankakerfin í kringum okkur. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ein af þeim ástæðum sem þar eru nefndar til er að skattlagning á bankakerfið hér á landi sé meiri en annars staðar tíðkast, annars vegar í gegnum bankaskattinn og hins vegar í gegnum sérstakan fjársýsluskatt sem lagður er á fjármálafyrirtæki á Íslandi. Það er eitt af því sem við munum þurfa að ræða þegar við tökum þetta til umræðu hér á Alþingi og þetta er inni í forsendum áætlunarinnar þó að frumvarp sé enn ekki komið fram um þetta mál, þ.e. hvort við metum að þessi aðgerð muni t.d. skila lægra vaxtastigi í landinu, því niðurstöður þessara tveggja skýrslna sem ég nefni hér eru þær að kostnaðurinn í fjármálakerfinu hafi þau áhrif að vaxtastig sé hér hærra en það þyrfti að vera, sem er auðvitað risastórt mál fyrir almenning í landinu.