149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka brýninguna og ég veit að ég á stuðningsmenn í þessum þingsal fyrir því að forgangsraða meiru í þágu samgangna. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að grunnpunkturinn, þ.e. það sem við höfum verið að gera í allt of mörg ár hefur verið of lítið. En að segja að 5,5 milljarðar plús 4 á ári sem viðbót séu ekki umtalsverð innspýting — ég myndi segja að þá séu menn að tala niður góða hluti. Það er klárlega umtalsverð innspýting á næstu árum. Og eins og ég lýsti í fyrra andsvari mínu þá er ekki útilokað að við næstu fjármálaáætlanir, hvort sem það verður á næsta ári eða þarnæsta ári, þegar menn sjá fyrir sér að þær framkvæmdir minnki sem eru kannski aðalatriðið og við höfum forgangsraðað mestum fjármunum í, þ.e. uppbygging á heilbrigðiskerfinu, verði hreinlega stærra svigrúm (Forseti hringir.) fyrir framkvæmdir á samgöngusviðinu og ég held að þær séu nauðsynlegar.