149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:11]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég held ég hafi komið inn á í mínu upphafsmáli þá liggur ekki nákvæmlega fyrir sá kostnaður sem innleiðing á nýju kerfi myndi fela í sér, enda er að störfum hópur núna sem er að vinna að þessum málum, skil hans hafa dregist og þar af leiðandi hefur umræddri skýrslu ekki verið formlega skilað til ráðuneytisins og ekki liggur fyrir nákvæmt kostnaðarmat á þessum tillögum. Við erum hins vegar með 4 milljarða í þessari fjármálaáætlun. Það þarf auðvitað að klára þessa vinnu, ljúka henni þannig að við getum fengið þetta inn í umræðuna og getum unnið með málið áfram og m.a. farið í ítarlega kostnaðargreiningu. Þá er hægt að uppfæra áætlanir ríkissjóðs.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að þau áform sem sett eru um að draga úr nýgengi örorku eigi að fjármagna þetta. Það er alveg rétt að það eru settar fram mjög metnaðarfullar tölur um það hvernig eigi að draga úr nýgengi örorku. Sá sem hér stendur hefur talsverðar áhyggjur af því að það takist ekki. En það er mikið í húfi að það takist, ekki bara gagnvart því að fjármagna betur kjör þeirra sem eru á örorkulífeyri heldur líka gagnvart einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem við erum að missa inn á örorku, gagnvart atvinnulífinu í heild sinni, gagnvart tekjum ríkissjóðs og svo mætti áfram telja. Það þarf virkilega kraftmikið átak, ekki bara með innleiðingu á starfsgetumati eða nýju kerfi heldur gagnvart uppbyggingu hlutastarfa eins og komið hefur verið inn á, breytingum á vinnumarkaði og heildarhugarfarsbreytingu. Hún er ekki orðin (Forseti hringir.) og það þurfa allir að koma inn í þá vinnu, ekki bara félagsmálaráðuneytið, ekki bara stéttarfélögin, ekki (Forseti hringir.) bara atvinnulífið, heldur allt okkar kerfi.