149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:31]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ekkert sérstaklega langur kafli um málefni fatlaðs fólks í fjármálaáætlun þeirri sem við ræðum hér, svo sem eðlilegt er, enda samdi ríkið á sínum tíma við sveitarfélögin um að taka í raun við almennri og sértækri þjónustu þess málaflokks.

Svo skemmtilega vill til að ég sat í sveitarstjórn á þeim tíma sem það samtal átti sér stað milli ríkis og sveitarfélaga og hafði ég miklar efasemdir um þá ákvörðun sveitarfélaganna að taka við málaflokknum. Það var ekki vegna þess að ég hefði ekki trú á getu sveitarfélaganna til að veita betri þjónustu en ríkið heldur vegna þess að í ljósi reynslunnar óttaðist ég að ríkið myndi við fyrsta tækifæri fara að draga úr framlögum til sveitarfélaganna og þau mundu sitja eftir með reikninginn.

Því miður virðist það einmitt vera að raungerast núna og hefur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sagt ráðherra og ríkisstjórn hafa brugðist trausti sambandsins á mjög alvarlegan hátt, en í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 3,3 milljarða skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á næstu tveimur árum.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að þetta mun hafa áhrif á þjónustu við fatlað fólk, enda er meginþungi framlaga til jöfnunarsjóðs til að fjármagna hluta af þjónustu við fatlað fólk. Styður hæstv. félagsmálaráðherra þennan niðurskurð á framlögum til jöfnunarsjóðs og þar með niðurskurð á þjónustu við fatlað fólk? Og telur ráðherra að þetta sé gott innlegg í samtal ráðuneytisins við sveitarfélögin um yfirtöku á málefnum aldraðra eða um dagvistun á leikskóla við 12 mánaða aldur?