149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því í fyrri umferð að taka boltann varðandi fæðingarorlofið og Fæðingarorlofssjóð. Nú var um áramót stigið þarft skref í því að hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði upp í 600.000 kr. Það er jákvætt. En staðreyndin er hins vegar sú að ef litið er til þeirrar fjárhæðar sem var hámarksgreiðsla úr sjóðnum eftir skerðinguna 1. janúar 2009, 400.000 kr., og það er uppreiknað miðað við launaþróun, þá væri eðlileg upphæð út frá þeirri skerðingu 720.000 kr., svo að þar munar 20%.

Þess vegna langar mig til að spyrja ráðherra hvort ríkisstjórnin hefði það í huga, hvort þess væri að finna stað í fjármálaáætluninni að hún hefði í huga, að tengja þessar hámarksgreiðslur eða greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði við vísitölu launa.

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra varðandi lengd fæðingarorlofsins, þetta markmið að fara upp í 12 mánuði sem er mjög jákvætt. Ég velti fyrir mér samspili ríkisstjórnarinnar við sveitarfélögin þar að lútandi, vegna þess að það er sagt í markmiðum áætlunarinnar að börnum verði þá boðið upp á dvöl í leikskóla við 12 mánaða aldur: Hefur átt sér stað samtal við sveitarstjórnarstigið um hvernig það verður framkvæmt? Ég spyr kannski sérstaklega með vísan í það að nú hefur það verið kynnt að ætlunin er af hálfu ríkisstjórnarinnar að frysta greiðslur í jöfnunarsjóð, þannig að ekki koma peningarnir þaðan. Það er líka töluverð mannekla á leikskólum landsins. Þar koma bág launakjör kvennastétta sérstaklega til sögunnar. Allt eru þetta mál sem heyra undir áherslur velferðarráðherra.

Ég spyr: Hvernig hyggst ráðherra ná þessum góðu markmiðum?