149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Herra forseti. Það er af mörgu að taka í kafla ráðherrans í fjármálaáætlun en mig langar að staldra við eina tölu sem hún nefndi sem mér þótti dálítið sláandi, sem er sú staðreynd að lántakendum hjá Lánasjóði námsmanna hefur fækkað um 52% á síðustu sjö árum á sama tíma og verið hefur stöðugur vöxtur í háskólakerfinu. Stúdentum hefur fjölgað á sama tíma.

Það er ekki heilbrigt kerfi. Það sér hver maður að þarna er aðgerða þörf. Þess vegna hljótum við öll að fagna því að loksins hilli undir að við fáum endurbætt lánasjóðskerfið, eins og ráðherrann kom inn á í upphafserindi sínu.

Mig langar hins vegar aðeins að velta upp þeirri óvenjulegu stöðu sem við erum í varðandi lánasjóðinn nú þegar kemur að þessum umskiptum. Það handbæra fé sem sjóðurinn hefur sem býður upp á að milda höggið við breytingar fyrir ríkissjóð. Hluti af því fé verður verður notað eins og fram kemur í fjármálaáætlun. En mig langar að velta því upp hvort kannski mætti líta á atriði sem Bandalag háskólamanna hefur bent á. Þau setja fram tillögur að fjórum atriðum sem breyta mætti í kerfinu sem horfa mörg til lengri framtíðar. Eitt þeirra er ábyrgðarmannakerfið, að afturvirkt fella niður sjálfskuldarábyrgð á námslánum sem tekin voru fyrir árið 2009. Það yrði væntanlega bókfært sem einhvers konar fjárhagslegu skellur fyrir lánasjóðinn.

Hefur ráðherrann eitthvað skoðað þann möguleika sem aðra leið til að virkja það mikla fé sem liggur inni hjá Lánasjóði námsmanna?