149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að við höfum svipaða sýn á framhaldsskólastigið og sérstaklega finnst mér það ánægjulegt þar sem hv. þingmaður er fyrrum skólastjórnandi á framhaldsskólastigi og þekkir afskaplega vel til hvernig eigi að forgangsraða, og hefur beitt sér fyrir því að lækka efnisgjöldin á framhaldsskólastiginu. Það var mjög gott samstarf sem við áttum í.

Hv. þingmaður spyr hvernig dæmið eigi að ganga upp. Í þeim tölum sem við höfum varðandi nemendaspá er nemendum að fækka allt til ársins 2024. Það verður ákveðið rými vegna þessa. Og eins og hv. þingmaður sér erum við að fara úr 30 milljörðum í 35 milljarða á framhaldsskólastiginu. Skólastjórnendur sem við höfum verið í sambandi við segja: Við höfum nú fyrst ákveðið rými til að fjárfesta í tækjabúnaði, til að efla starfsnámið hjá okkur.

En við vöktum þetta mjög vel vegna þess að við vitum að eftir fjármálahrunið þurfti ákveðið aðhald alls staðar í samfélaginu þannig að við erum að vinna upp ákveðna fjárfestingarþörf á framhaldsskólastiginu.

En til að svara hv. þingmanni horfum við fram á að fækkun verði á framhaldsskólastiginu. Þá notum við það rými til þess að hækka meðaltalið á hvern nemanda, eins og hefur verið að gerast.