149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Löggjöfin er ekki alveg eins á öllum Norðurlöndum. Við erum að mestu leyti með okkar mál mjög svipuð og í löndunum í kringum okkur, en þó eru ákveðin atriði þar sem við göngum lengra í réttindum eða skemmra í kröfum eða skilvirkni mála. Hluti af því sem unnið er að í frumvarpinu er að færa okkur nær því sem er á Norðurlöndunum og í öllum þessum málum er auðvitað alltaf mikil þróun. Þetta er að mörgu leyti snúið. En þegar við erum með kerfi sem við vitum að er að einhverju leyti ekki verið að fara rétt með, eins og þegar um er að ræða t.d. tilhæfulausar umsóknir, bitnar það á fólki sem kerfið er raunverulega fyrir. Fyrir mér er ekki erfitt að færa rök fyrir því að kerfið sé fyrir það og við þurfum að tryggja að allt regluverk stuðli að akkúrat því.