149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. Skildi ég hæstv. ráðherrann rétt að dómarar við Landsrétt, þau fjögur sem ekki mega sinna störfum sínum, mæti engu að síður til starfa í réttinum? Getur ráðherra upplýst þingheim um hvað felist í daglegum störfum þeirra?

Það sem eftir lifir tíma langar mig að vinda mér yfir í málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og spyrja hæstv. ráðherra: Kemur til greina að lækka kostnað vegna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi með því að leyfa þeim að vinna tímabundið á meðan beðið er?

Fyrir nokkrum árum þegar umsækjendur gátu fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi og bráðabirgðaatvinnuleyfi á grundvelli ráðningarsamnings duttu þessir einstaklingar út úr allri þjónustu, til umtalsverðs sparnaðar fyrir íslenska ríkið, hvort sem um er að ræða uppihald eða húsnæði. Þess vegna spyr ég: Er ekki rakið að liðka til fyrir útgáfu slíkra leyfa fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd núna þegar blikur eru á lofti í ríkisbúskapnum?