149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

¡fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:03]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi málefni Landhelgisgæslunnar, þ.e. bæði áhafnir og þyrlukaup. Ég vona að áætlun um útboð og annað slíkt standist og við sjáum fram á mjög miklar og mikilvægar fjárfestingar. Allt á þetta sér sinn aðdraganda og það tekur tíma að undirbúa og tryggja fjármagn en þetta skiptir okkur verulegu máli af alls kyns ástæðum sem ekki er hægt að fara yfir á einni mínútu.

Varðandi löggæslumál og löggæsluáætlun þá er hún mjög langt á veg komin, tilbúin í fínum drögum. Fram undan er það verkefni að kafa ofan í hana og í kjölfarið að birta hana. Í þeirri áætlun eru löggæsluyfirvöldum sett raunhæf markmið með skýrum mælikvörðum. Markmiðið með gerð löggæsluáætlunar er að skilgreina eðli og umfang starfsins og skilgreina ítarlega þau verkefni sem lögreglunni er ætlað að sinna, hver kostnaður ríkissjóðs er af störfum lögreglu hverju sinni. Tilgangurinn er sömuleiðis að kostnaðurinn við verkefni lögreglu verði gagnsærri en áður og að tryggja að fjárveitingar til hennar byggi á faglegum grunni.

Þetta er líka langur aðdragandi. Ég fagna því mjög að þetta sé komið þetta langt. Í mínu fyrra lífi sem starfsmaður í ráðuneytinu var verið að vinna að þessu og maður fann fyrir þessari þörf, að geta unnið almennilegar greiningar á því hvar þörfin væri til að geta forgangsraðað fjármunum og réttlætt það og útskýrt fyrir fólki hvers vegna peningar væru að fara hingað en ekki þangað, í hvers konar löggæslustörf, hvar á landinu o.s.frv. Það er eitt sem fólki finnst eða hefur á tilfinningunni um það hvar þörfin er raunverulega mest eða hefur verið á undanförnum árum. (Forseti hringir.) Stundum er þörfin þar sem lögreglan er alls ekki sýnileg. En það vantar kannski helst fjármuni á þá staði.