149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Málefni sýslumannsembættanna eru sífellt til umræðu og ekkert að fara frá okkur. Nú er unnið að heildarstefnumótun fyrir embættin og þar er mjög margt undir og margt sem kemur til skoðunar. Í mjög langan tíma hefur verið reynt að berjast fyrir því að fá fleiri verkefni til embættanna, t.d. verkefni sem í dag eru í ráðuneytunum eða annars staðar. Það eru margir sammála því í orði en eitthvað stendur á verkefnunum; ég er þar með talin sem ráðherra í öðru ráðuneyti. Af því að hv. þingmaður notaði orðin „að fóta sig“ þá er það eiginlega verkefni í mínum huga: Hvernig geta sýslumannsembættin fótað sig í breyttum samfélögum? Þú ert með til framtíðar miklu meiri rafræna þjónustu og tækifæri til að fjölga störfum án staðsetningar. Þegar við getum farið í rafræna þjónustu þýðir það ekki að ekki þurfi lengur störf úti á landi, að þau geti öll verið í Reykjavík. Það ætti einmitt að snúa því við og spyrja: Heyrðu, hvaða störf geta verið úti á landi? (Forseti hringir.) Getum við ekki bara tekið pólitíska ákvörðun um það að alls konar störf sem geta verið á báðum stöðum eigi frekar að vera úti á landi? Það væri mjög öflug leið til að efla sýslumannsembættin.