149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég spyr í fyllstu einlægni vegna þess að þetta er viðmiðið fyrir 2024, að þá sé í 90% tilvika hægt að reiða sig á lögreglu í mjög alvarlegum tilfellum. Mér líka ekki þær líkur, því miður, frú forseti. Raunhæft eða ekki? Þá finnst mér svolítið langt í land með að við fáum 90%, meira að segja.

En að öðru og meira um áætlanir. Í upptalningu yfir helstu áskoranir lögreglu er rætt um úttekt sem gerð var í Schengen-samstarfinu árið 2017 og svo er fjallað um aðgerðaáætlun til að bæta úr þeim athugasemdum sem því fylgdi. Í þessari áætlun er þó ekki minnst orði á athugasemdir sem GRECO, samtök ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu, setti fram gegn stjórnvöldum í fyrra og þær voru sérstaklega alvarlegar í garð lögreglu. Vert er að taka fram að það var ekki verið að saka lögregluna um spillingu, heldur vantar bara ákveðna varnagla svo spilling geti ekki átt sér stað, allt frá því að hafa yfir nægum mannskap að ráða svo ekki þurfi að vinna tvöfaldar vaktir, láta lögreglumenn vinna eina, og yfir í reglur um vernd uppljóstrara innan lögreglunnar. (Forseti hringir.)

Hvar er aðgerðaáætlun stjórnvalda gagnvart spillingu? Hvernig á nokkur önnur aðgerðaáætlun að vera trúverðug ef við byrjum ekki á þessari?