149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:30]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að lögð er mikil áhersla á umhverfismál í fjármálaáætluninni. Ekki er vanþörf á og mætti jafnvel spyrja hvort nóg sé að gert.

Kannski er rétt að hefja mál sitt á því að biðja hæstv. umhverfisráðherra að passa vel upp á að þessir peningar verði ekki af honum teknir ef þarf að grípa til frekara aðhalds vegna blikna sem eru á lofti í efnahagsmálum.

En ég ætla að aðeins að víkja að kaflanum þar sem er talað um stjórnsýslu umhverfismála. Það vakti athygli mína að aðgerð nr. 5 fjallar um samstarf við bændur um loftslagsvænni landbúnað. Þá er spurning í hverju þetta samstarf eigi að felast, hvort það sé eitthvað farið að skýrast.

Í tengslum við það þá er í kaflanum um landbúnað talað um árlegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði og þar eru sett markmið um 2%. Viðmiðunin er sem sé -2% árið 2020 og aftur -2% árið 2024.

Einhvern veginn finnst mér þetta ekki vera mjög metnaðarfull markmið og þætti vænt um að heyra í umhverfisráðherra um það hvort að hér þyrfti ekki að stíga fastar til jarðar, sérstaklega í ljósi þess að ef ég hef lesið rétt úr upplýsingum frá Umhverfisstofnun er landbúnaður þriðji stærsti losandi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, þó að hann sé að vísu langt fyrir neðan þá sem stærstir eru.