149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:32]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Samkvæmt fjármálaáætlun lækka framlög til utanríkismála um hundruð milljónir króna á næstu fimm árum. Árið 2024 er áætlað að framlögin verði rúmum milljarði lægri en 2020. Hluti af þessu er skýrður með aðhaldskröfu en annað vegna tímabundinna verkefna sem er að ljúka á tímabilinu.

Frú forseti. Þetta þykir mér skammsýni. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og einmitt núna að auka alþjóðasamvinnu. Samvinna við aðrar þjóðir hefur skilað okkur Íslendingum ótrúlegum verðmætum, efnahagslegum, menningarlegum og félagslegum. Þar fyrir utan stendur mannkynið frammi fyrir gríðarlegum áskorunum sem krefjast nánari og metnaðarfyllri samvinnu þjóða en áður hefur þekkst. Þar nægir að nefna loftslagsógnina sem steðjar að okkur. Hlýnun jarðar skeytir ekki um landamæri og mun krefjast meiri samvinnu og mun róttækari og kostnaðarsamari aðgerða. Eða er ráðherrann kannski ósammála mér um að hlýnun jarðar kalli á meiri samvinnu og þar af leiðandi meiri útgjöld ráðuneytis hans?

Ísland er ein ríkasta þjóð í heimi. Árið 2013 var tímasett áætlun um þróunarsamvinnu samþykkt á Íslandi um að markmiði Sameinuðu þjóðanna um að 0,7% af þjóðarframleiðslu yrði náð árið 2019. Flokkur hæstv. ráðherra hefur reyndar hunsað vilja Alþingis síðan þetta var og þessi ríkisstjórn ætlar sér einungis að fara upp í 0,35% á fimm ára tímabili. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það algert metnaðarleysi, frú forseti, fyrir utan það að rúmur þriðjungur af þessu rennur í innlenda aðstoð sem er miklu hærra hlutfall en þekkist í samanburðarríkjum okkar.

Ég hlýt því að spyrja: Ef ekki á næstu fimm árum, hvenær sér þá hæstv. ráðherra fyrir sér að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna um 0,7% af þjóðarframleiðslu?