149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[23:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er nákvæmlega það sem maður heyrir oft í þjóðfélaginu og ég skil alveg hvaðan hv. þingmaður kemur. Hann hefur heyrt eitthvað sem er í umræðunni en eru í raun ekki réttar upplýsingar og mun ég fúslega leiðrétta þann misskilning. Við erum ekki með neitt viðskiptabann á Rússa. Við tókum þátt í refsiaðgerðum með öðrum vestrænum þjóðum eftir innlimun Krímskaga sem miðast að aðilum tengdum valdhöfum í Rússlandi en ekki að almenningi.

Síðan er það þannig að Rússar setja viðskiptabann á þær þjóðir sem taka þátt í þeim refsiaðgerðum. Þeir taka út ákveðnar vörur, þær vörur sem koma verst niður á okkur, annars vegar í sjávarútvegi og hins vegar landbúnaði. Að vísu kemur það líka illa niður á Eystrasaltsríkjunum og Finnlandi og Danmörku og ýmsum öðrum ríkjum. En við höfum aldrei sett viðskiptabann á Rússa. Þó að getum ekki selt þessar vörur út af viðskiptabanninu sem þeir settu á okkur höfum við samt gert hvað sem við getum til að liðka fyrir viðskiptum milli ríkjanna. Þeir eru t.d. að kaupa af okkur skip. Sömuleiðis hafa þau fyrirtæki sem framleiða ýmislegt sem snýr að sjávarútveginum gert samninga, jafnvel stóra viðskiptasamninga, við Rússa. En það eru aðallega þessar tvær greinar sem þeir settu viðskiptabann á, landbúnaður og sjávarútvegur. Það er líka alveg vitað að þeir nýttu tækifærið þarna til að vernda þá framleiðslu heima fyrir og eru að reyna að auka matvælaframleiðslu sína, bæði á vettvangi landbúnaðar og sjávarútvegs.