149. löggjafarþing — 88. fundur,  2. apr. 2019.

skerðingar vegna atvinnu- og lífeyrissjóðstekna eldri borgara og öryrkja.

[14:32]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og hæstv. ráðherra Ásmundi Einari Daðasyni fyrir innlegg hans. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um mikilvægi þess að afnema krónu á móti krónu skerðingu og við þurfum að flýta því máli.

Mig langar til að koma inn á málefni aldraðra og vinnumarkaðsmál. Eftirlaunahópurinn fer stöðugt stækkandi, en það er hópurinn 67 ára og eldri. Það er sá aldur og aldurstakmark sem við höfum sett inn sem réttindamörk vegna eftirlauna og almennt er aldurshópurinn 67–70 ára sá sem við höfum gert ráð fyrir að hverfi af launamarkaði. En eiga þessi aldursmörk enn þá við? Bætt heilsa og líðan gerir það að verkum að fólk er virkara lengur og því tilbúnara til að vinna lengur. Fólk stundar endurmenntun alla starfsævina og viðheldur færni við fjölbreytt störf. Vinnumarkaður framtíðarinnar verður sveigjanlegri og mun gera ráð fyrir ólíkum þörfum og mismunandi færni. Allt eykur það kröfur fólks til að geta stundað vinnu lengur. Auk þess þurfum við á að halda kröftum, hæfileikum og reynslu fólks hér á landi eins lengi og þess nýtur við, sem getur líka aukið ráðstöfunartekjur þess.

Það er ekki seinna vænna en að undirbúa vinnumarkaðinn og umhverfi þess fyrir það að fólk dvelji þar lengur. Við þurfum að horfa á þá staðreynd að þessi aldursmörk, 67 ár, eiga ekki lengur við. Frá 1. janúar 2018 var frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækkað í 100.000 kr., sem þýðir að þeir geta unnið sér inn 100.000 kr. á mánuði með atvinnu án þess að það hafi nokkur áhrif á greiðslu ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Það eykur þann sveigjanleika að fólk geti að einhverju marki unnið launavinnu á móti töku eftirlauna og stuðlað að sveigjanlegri starfslokum.

Virðulegi forseti. Það er ekki aðeins að hlutfall þeirra sem eru í hópi aldraðra fari stækkandi heldur er breytileiki þessa hóps mikill. Það er því nauðsynlegt að vinnumarkaðurinn fari fyrir alvöru að horfa til þessa hóps af meiri áhuga en áður.