149. löggjafarþing — 89. fundur,  8. apr. 2019.

fyrirvari við þriðja orkupakkann.

[15:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður, ef marka má orð hennar áðan, hefur eitthvað misskilið málið ef hún hefur talið að þeir fyrirvarar sem við höfum lagt upp með þessu beinist að þeirri pólitísku yfirlýsingu. Það hefur aldrei verið sagt. Fyrirvarinn byggist á því að við erum ekki tengd raforkumarkaði ESB og það myndi eingöngu gerast ef sæstrengur yrði lagður.

Það sem verið er að gera í meðförum þingsins, virðulegi forseti, ef áætlanir ná fram að ganga, er að herða á því að það sé ekki gert nema Alþingi komi að slíkri ákvörðun. Þetta er allt saman á okkar forræði, enda kemur það m.a. fram í þeirri yfirlýsingu sem vísað er til og þar er bent á hið augljósa. Af því að við vorum að ræða þau norsku samtök sem hér beita sér þá eru þau ekki að hugsa um íslenska hagsmuni. Þau hafa barist fyrir því í mjög langan tíma (Forseti hringir.) að koma Noregi út úr EES-samstarfinu og eru að reyna hvað þeir geta á Íslandi til að skaða það samstarf.