149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði réttilega að hann hefði rétt á sínu mati á þessu máli eins og öðrum málum. Öll höfum við það. Ég met stöðuna svo að hann sé að mála skrattann á vegginn í þessu máli og tel að gögn málsins gefi tilefni til þess að komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé sú hætta uppi sem hann lætur í veðri vaka.

Eins og ég nefndi í andsvörum við hv. þm. Unu Maríu Óskarsdóttur hér áðan munum við í þinginu, þegar við höfum tækifæri til að fjalla um þetta mál í nefndum, fara yfir öll þau lögfræðiálit sem skrifuð hafa verið um þetta efni. Bæði frá þeim ágætu mönnum Stefáni Má Stefánssyni og Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst og eins frá Skúla Magnússyni, Davíð Þór Björgvinssyni og raunar eldri álit frá Ólafi Einari Jóhannessyni og Birgi Tjörva Péturssyni, sem fjallað hafa um þetta mál með ágætum hætti — og kalla til fleiri sérfræðinga.

Ekkert þessara sérfræðiálita, tel ég, gefur okkur tilefni til að hafa þær áhyggjur sem hv. þingmaður hefur. En látum það þá koma í ljós í meðförum þingsins á málinu. Fjöllum um það, fáum svör við þeim spurningum sem enn þá standa út af borðinu. Ef menn efast um þau svör sem þegar eru komin fram hafa menn tækifæri til þess að koma með rök og gagnrök í málinu.

En ég tek nú til máls fyrst og fremst vegna þess að ég held að þær áhyggjur sem koma fram hjá hv. þingmanni og flokksfélögum hans séu fullkomlega ástæðulausar og tel að þau gögn sem þegar liggja fyrir renni stoðum undir þá skoðun mína. Ég (Forseti hringir.) held að þó að menn taki eina og eina setningu úr einu lögfræðiáliti og slíti úr samhengi breyti það ekki þeirri niðurstöðu.