149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Í febrúarmánuði síðastliðnum lagði ég fram þingsályktunartillögu ásamt níu öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Pírata um að bannað verði að nota pálmaolíu í framleiðslu lífdísils á Íslandi. Í tillögunni er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að leggja fram frumvarp eigi síðar en í lok árs 2019 um að bannað verði að nota pálmaolíu í lífdísil á Íslandi.

Eins og kom vel fram í síðasta þætti af Hvað höfum við gert? á RÚV eru regnskógar ruddir þegar pálmaolía er unnin, en það hefur verulega slæm áhrif á umhverfið og lífríkið sem brýnt er að girða fyrir. Með tillögunni fylgir ítarleg greinargerð sem byggð er á umfjöllun Rannveigar Magnúsdóttur vistfræðings. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Í dag er langstærstur hluti pálmaolíu á markaði ósjálfbær og valdur að eyðingu regnskóga. Talið er að hið minnsta 15 milljónir hektara af regnskógi sé nú þegar búið að fella fyrir framleiðslu á pálmaolíu, aðallega í Indónesíu og Malasíu. Slíkt landflæmi“ — til að setja það í samhengi — „jafnast á við eitt og hálft Ísland að stærð. Framleiðsla á pálmaolíu hefur tvöfaldast undanfarinn áratug og mun líklega tvöfaldast enn fram til ársins 2020.“

Auðvitað væri freistandi að ganga lengra og banna einfaldlega allan innflutning á pálmaolíu til Íslands, en í lífdíslinum liggur umtalsvert magn og því er þetta talið vera gott fyrsta skref.

Hefð hefur verið fyrir því að líta á lífeldsneyti sem kolefnishlutlausa vöru en sú einföldun hefur í raun blekkt stjórnvöld til að trúa því að pálmaolía í lífeldsneyti sé betri fyrir loftslagið en jarðefnaeldsneyti. Því miður er raunin þveröfug. Þá er lífdísill framleiddur á þremur stöðum á Íslandi í dag og þar er nýtt tækifæri til að framleiða eins umhverfisvænan lífdísil og mögulegt er.

Herra forseti. Ég hvet þingheim til að kynna sér tillöguna og greinargerð hennar og styðja málið þegar það kemst á dagskrá í vor.