149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir ræðuna. Ég held það sé ágætt í þessari umræðu að árétta með reglulegu millibili hvaða mál við erum að ræða. Við ræðum þingsályktunartillögu frá hæstv. utanríkisráðherra þar sem leitað er heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Hv. þingmaður ræddi mjög margt — og ég tek fram að við eigum í fyrri umr. að velta upp spurningum sem styðja umfjöllun nefndar í kjölfarið — og kom m.a. inn á það af hverju við værum að þessu öllu saman.

Til að halda staðreyndum til haga ætla ég að reyna að svara þeirri stóru spurningu og vísa í svar hæstv. utanríkisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni um orkupakka ESB. Þar spyr hv. þingmaður: Hvaða rök lágu að baki því að íslensk stjórnvöld ákváðu að innleiða fyrsta orkupakka ESB hér á landi? Hvaða rök voru fyrir því að ákveða að orkumarkaður á Íslandi skyldi verða hluti af innri markaðnum? Þetta er auðvitað stór spurning og það er mjög mikilvægt að við höfum þetta í huga.

Virðulegi forseti. Svarið er hér: Reglur um viðskipti með orku hafa verið hluti EES-samningsins frá gildistöku hans árið 1994. Það hefur aðeins verið uppi misskilningur um þetta í umræðunni. Og orka er skilgreind sem vara og fellur því undir frjálsa vöruflutninga sem er hluti fjórþætta frelsisins, en bæði innri markaður Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins byggjast á því.