149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir prýðisgóða ræðu. Hann snerti að mörgu leyti á þeim þáttum sem ég geri fyrirvara við um málið og ég mun fara yfir á eftir.

Varðandi þá beiðni að nefndin fundi meðan á þingfundi stendur. Ég hef kannski ekki verið mjög auðveld í taumi fyrir hv. formann nefndarinnar, sérstaklega ekki hvað varðar fundartíma. En ég leyfi mér að segja að ég er reiðubúin til þess að funda til að fara yfir þá þætti sem hv. þingmaður fór efnislega vel yfir áðan, rök sem vega þungt, um leið og við undirstrikum — alla vega vil ég undirstrika varðandi þann ramma sem við höfum að mörgu leyti búið strandveiðunum að það hefur sýnt sig að fyrst við höfum tekið ákvörðun um kerfi, sumir kalla það félagslegt kerfi, þurfi að búa því einhvern ramma. Það hefur sýnt sig að strandveiðarnar hafa skilað umtalsverðu en ég veit að Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag sveitarfélaga í sjávarútvegi hafa sagt að bíða eigi með að lögfesta málið. Þó er enginn sem vill missa strandveiðarnar sem slíkar út úr félagslega pakkanum. En það sem mér finnst skipta mestu máli er heildarmyndin sem liggur ekki fyrir.

Það er bagalegt að úttektin hafi ekki átt sér stað. Af hverju það er, hvort það er fyrirstaða í kerfinu, ráðuneytinu, skal ég ekki segja, en ég tek undir með þingmanninum um að þannig á það að vera.

Þegar hv. þingmaður talaði um félagslega kerfið, er hann þá ekki sammála mér um að fara þurfi líka í endurskoðun samhliða þessu á almenna byggðakvótanum, af því úthlutun sértæka hluta (Forseti hringir.) kvótans sem er hjá Byggðastofnun hefur gengið vel? Það liggja náttúrlega fyrir tillögur þess efnis.