149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hérna nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, strandveiðar.

Ég er á þessu nefndaráliti. Mitt nafn er þar og er ég þar með samþykkur þessu. Ég ætla aðeins að fara yfir helstu punkta í nefndarálitinu sem ég lagði áherslu á og er sammála um að komi fram og ræði út frá því.

Fyrst er að nefna að Landhelgisgæslan telur að reynsla síðasta sumars, þar sem leyfðir voru 12 dagar innan hvers mánaðar, hafi verið góð og að veiðidagar hafi verið valdir með tilliti til veðurfars og sjólags í stað þess að keppast um úthlutaðan kvóta á hverju svæði eins og gert var árin þar á undan. Er þessi niðurstaða eða tilkynning mjög gleðileg, að Landhelgisgæslan hafi fengið þetta út. Ég heyrði það líka bara á mönnum á svæðunum að þeir sögðu að andrúmsloftið væri rólegra. Menn væru ekki að ana út í einhverja vitleysu í vondum veðrum. Það var grunnstefið í fyrravor þegar mælt var fyrir þessu máli og í þeirri vinnu sem fór fram í sambandi við það að öryggissjónarmiða væri gætt. Það er gott mál.

Það er aukið við pottinn, úr 10.200 tonnum sem var í pottinum í fyrra í 11.000 tonn. Ufsinn sem var í 700 tonnum í fyrra er aukinn upp í 1.000 tonn. Það er til bóta og eykur líkurnar á því að menn og konur og allir þeir sem fara til strandveiða nái að nýta sína daga og það verði ekki lokað á einhverjum svæðum áður en menn nái að klára sína daga. Það er það sem maður hefur heyrt að er mikið áhyggjuefni á mörgum svæðum, að potturinn klárist, en það sýndi sig í fyrra þegar voru leyfð 10.200 tonn að það voru rúm 100 tonn eftir eða meira. Það veiddust um 9.000 tonn. Svo eru að auki rækju- og skelbætur og það lítur út fyrir að afgangur verði á línuívilnun á þessu ári og þá er heimild til að nota það sem út af stendur, ef með þarf, til að bæta inn í strandveiðarnar. Eins og þetta lítur út núna þá eru það 1.500 tonn eða eitthvað slíkt. Við gætum verið að tala um milli 12.000 og 13.000 tonn. Þótt það yrði einhver aukning á bátum þá ætti það ekki að verða til þess, að mínu mati og okkar í nefndinni, að potturinn myndi klárast.

Svo eru fleiri breytingar sem lagðar eru til í breytingartillögu með frumvarpinu, sem ég er mjög ánægður með. Nefndin leggur t.d. til að hægt verði að hætta á tímabilinu og fara yfir í annan veiðiskap, t.d. í maí, júní, júlí. Ef bátur hættir í júní þá tekur það gildi um næstu mánaðamót, þá getur hann farið í annan veiðiskap. Þetta er í anda þess sem sá sem hér stendur var kominn með í frumvarp sem komst ekki að í fyrra, það var akkúrat um þetta, að menn gætu hætt strandveiðum og farið á aðrar veiðar. Þannig hefur þetta ekki verið. Ef maður hættir strandveiðum þá verður að bíða eftir því að næsta kvótatímabil hefjist til að hefja einhverjar aðrar veiðar. En þarna er þetta opnað. Í Breiðafirði innanverðum er t.d. gráslepputímabilið fram í ágúst. Menn geta þá byrjað á strandveiðum og farið svo á grásleppu. Þeir sem eru að huga að makrílveiðum gætu hætt t.d. í júní eða júlí og farið á makríl. Þetta veitir mönnum svigrúm til að geta ráðstafað sér meira í það sem þeir telja hag í að gera, því það eru ekki allir sem hafa úr miklu að moða í sinni útgerð. Þetta er mjög gleðilegt og er ég ánægður með þessa breytingu.

Svo er atriði sem hefur verið komið svolítið inn á í ræðum í dag, að það sé verið að festa þetta í lög en ekki aftur til bráðabirgða eða til eins árs eins og við gerðum í fyrra. Ég viðurkenni alveg að það stóð svolítið í mér að við skyldum ekki geta byrjað að fjalla um málið fyrr í vetur og unnið að því að sníða það til eins og við lofuðum í raun í fyrravor. En einhverra hluta vegna kom málið ekki inn í nefndina fyrr en fyrir ekki svo löngu síðan þannig að tíminn er naumur, því að strandveiðar hefjast 1. maí.

Það var samþykkt í nefndinni af flestum, sumir settu fyrirvara, að Byggðastofnun myndi gera ítarlega úttekt á reynslu tveggja síðustu strandveiðitímabila. Að mati nefndarinnar þarf í úttektinni að leggja áherslu á byggðafestu, öryggismál, útkomu mismunandi landshluta, sveigjanleika í kerfinu og fiskigengdar innan veiðisvæða á tímabilinu. Niðurstöðuna mun atvinnuveganefnd nota til að vinna að frekari endurbótum á strandveiðikerfinu í samráði við strandveiðimenn á svæðunum fjórum og hagsmunasamtök þeirra fyrir strandveiðitímabilið 2020. Óskað verður eftir því að úttektin liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2020.

Ég ætla að leyfa mér að trúa því að af þessu verði og efast ekkert um að við stöndum við þetta. Það er eitt gott við þetta, þannig lagað séð, þá liggja tvö ár undir, tvö sumur eða tímabil, og sýnir lengri tíma. Menn kvörtuðu svolítið yfir því sums staðar á landinu að það væri ekki mikið að marka síðasta sumar af því að tíðarfarið hefði verið slæmt og bátar á A-svæði, þar sem er oft besta veiðin á vorin, hefðu ekki getað beitt sér eins og þeir hefðu annars getað gert ef veðrið hefði verið betra. Það verður kannski allt annað tíðarfar í sumar þannig að það kemur þá í ljós hvernig það reynist og hægt að taka mið af því. Ég treysti því að Byggðastofnun fari í þessa vinnu og ætla ég ekkert að segja meira um það.

Það hefur verið drepið á ýmsa þætti í ræðum hér á undan. Ég tók eftir því í ræðu hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að hann minntist á annan veiðiskap sem ætti við ramman reip að draga í afkomu vegna alls konar hluta, t.d. eru lúðuveiðar bannaðar og humarveiðar eru tregar og ganga illa og þar fram eftir götunum. Ég hef lagt það til að opnað verði á lúðu sem meðafla á línu, á króka og öll veiðarfæri, það verði leyft að landa henni í VS-afla eða eitthvað slíkt. Það er ekki leyft í dag, alla vega á krókum fer allur lúðuaflinn í sjóinn aftur. Það má ekki landa lúðu. Menn vita ekkert hvernig staðan er á lúðustofninum, það hefur ekki heldur farið nein rannsókn fram hjá Hafrannsóknastofnun. Það hefur ekki verið beðið um að þeir rannsaki þetta, ég gef mér að það sé út af peningaleysi eða einhverju slíku. En ef lúða yrði leyfð sem meðafli til löndunar þá fengist mynd af því hvernig ástandið er hvað það varðar. Sjálfur hef ég verið á línuveiðum og fundið það síðustu ár að þetta er að aukast. Lúðan er að stóraukast sem meðafli og það er súrt að geta ekki landað henni, því ég leyfi mér að fullyrða að það er ekki mikið af lúðunni sem lifir af þótt hún fari í sjóinn aftur og sumt af henni er bara dautt þegar hún kemur upp. Ég legg til að lúðuveiðar verði leyfðar aftur sem meðafli á öll veiðarfæri.

Hér var minnst á löndun í heimabyggð og þá til vinnslu og eins gámaútflutning. Það væri til mikilla bóta ef öllum afla, af því að við erum að tala um strandveiðar, yrði landað til vinnslu. Ef það væri gert yrði það miklu verðmætara fyrir hvert byggðarlag. En það er kannski erfitt að setja það í lög, ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Það er örugglega ekki svo einfalt en það væri gott ef það væri hægt.

Í sambandi við gámaútflutning þá er náttúrlega ekki mikill virðisauki í því og alls ekki að landa fiski í gám til útflutnings. Það er ekki til fyrirmyndar. En það er með það eins og fleira, það er kannski erfitt að banna það. En alla vega þarf að skoða að það sé hægt að taka skref í þá átt.

Við erum, að því gefnu að þetta mál verði samþykkt, að stíga það skref að festa strandveiðar í lög. Það eru í raun og veru tímamót. Strandveiðar hafa sannað sig frá því að þær voru settar á sem prýðiskerfi, þannig að það er sátt, sæmileg sátt í greininni allri með þetta kerfi, þjóðarsátt, eftir að strandveiðar komu á. Ég var mjög skeptískur á þær á sínum tíma, en það hefur líka ýmislegt lagast, aflinn aukist og eins og hér er gert, það er verið að laga ýmislegt til. Það verður vonandi hægt að taka betur til í þessu þegar málið kemur aftur inn í haust.

Ég lýsi ánægju minni með þetta skref og vonast til að þingheimur sé sammála mér í því.