149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:55]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að koma hér aftur upp og árétta afstöðu mína varðandi nokkur atriði í þessu frumvarpi, í fyrsta lagi varðandi það að fyrirkomulag strandveiða, eins og því var breytt til bráðabirgða í fyrra fyrir strandveiðitímabilið 2018, verði fest í sessi. Ég tel hreinlega ekki komna næga reynslu á þetta nýja fyrirkomulag og tel farsælla að láta núverandi fyrirkomulag gilda til bráðabirgða einnig í sumar. Ég tel eitt strandveiðitímabil einfaldlega of skamman viðmiðunartíma.

Ég ætla einnig að árétta örlítið varðandi svæðaskiptinguna og þá hættu sem ég talaði um varðandi skiptingu milli svæða og mismun á milli svæða varðandi þetta fyrirkomulag. Ef við lítum á töfluna sjáum við að á svæði A, ef við miðum við árin 2010–2017, hefur dögum fjölgað með nýja fyrirkomulaginu. Þeim hefur fjölgað umtalsvert á svæði A í 48 úr 30, því sem var, miðað við hin árin. Á svæði B hefur dagafjöldinn nokkurn veginn staðið í stað. Á svæðum C og D hefur þeim fækkað, annars vegar úr 55 dögum að meðaltali og hins vegar 54 í 48. Þarna er ansi mikill munur á milli svæða, mikil fjölgun daga er á einu svæði, töluverð fækkun er á tveimur öðrum en fjöldinn stendur í stað á því fjórða.

Þetta er það sem ég er að tala um.

Einnig vek ég athygli á árinu 2017 þar sem það sker sig ansi mikið úr öðrum árum, sérstaklega varðandi svæði B, C og D hvað dagafjölda varðar. Ástæðan fyrir því er líklega gæftaleysi, þeir hafa sem sagt verið lengi að ná upp í kvóta þess svæðis og hafa þurft mikla sókn. Það er einmitt það sem ég er að benda á.

Dæmisagan sem ég ætla að endurtaka er þessi: Sá sem gat veitt sex tonn á átta dögum áður en svæðunum var lokað hagnast auðvitað meira á því að dögum sé fjölgað í 12, en sá sem þarf 16 daga til að veiða sama magn, þ.e. þessi sex tonn, áður en svæði hans er lokað. Hjá þeim fyrri er um aukningu að ræða en skerðingu hjá hinum.

Getur atvinnuveganefnd, sem unnið hefur afskaplega gott starf — og ég tek undir hrós hv. þm. Ólafs Ísleifssonar til atvinnuveganefndar fyrir að laga þetta frumvarp eins og raun ber vitni að miklu leyti og er á margan hátt til stórkostlegra bóta. Það er kannski ekki einfalt eða auðvelt að finna lausn á því vandamáli sem ég er að tala um en þetta getur orðið raunhæft vandamál ef heildarkvóta verður náð, sem hefur reyndar aukist í 11.000 tonn, áður en strandveiðitímabilinu lýkur og veiðar eru stöðvaðar.