149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[18:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni skýr svör í þessum efnum og í rauninni er spurning mín þessi: Af hverju ekki fyrr? Af hverju ekki fyrir einhverjum árum síðan? Það er það sem ég er að velta fyrir mér. Ég stóð nefnilega í þeirri meiningu að við værum algerlega bundin af lögum eða reglugerðum Alþjóðapóstsambandsins sem flokkar Kína, ef ég skil það rétt, sem minna þróað ríki og þar af leiðandi væri kostnaðurinn minni. Í rauninni þýðir það að vestræn ríki niðurgreiða sendingar frá samkeppnisríkinu Kína þegar kemur að svona sendingum.

Þannig að ég velti fyrir mér: Er þetta leið sem fleiri lönd hafa farið? Er þetta þá ný leið til að komast hjá því sem þessar samþykktir Alþjóðapóstsambandsins hafa sett okkur í?

Ég ítreka það sem ég sagði áðan og það er gott að heyra að hv. þingmaður er mér sammála og ég vona að það sé andinn í nefndinni, að þó að þessi þjónusta sé vissulega mikilvæg og við eigum að bjóða upp á hana um land allt þá þarf það ekki endilega að vera á herðum ríkisins. Ríkið gæti til að mynda boðið út þessa þjónustu til einkaaðila.