149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[19:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir spurninguna. Ég ætla að byrja á því að viðurkenna það hér og nú að hann kemur algjörlega að tómum kofanum hjá mér varðandi þessa skilgreiningu. Þetta er flókið mál og ég geng út frá því að í umræðu um heildarendurskoðun á póstlögum verði þetta skoðað mjög ítarlega. Ég veit það líka, og það er alveg rétt, að póstþjónustur annarra vestrænna ríkja eru að fara ofan í þetta.

Það sem veldur mér ákveðnum óróleika er að í upphafi vinnunnar, nefndin er búin að vinna heilmikið í þessu máli þótt ekki séu dagarnir margir, eru þær staðreyndir lagðar á borð að við náum ekki upp í 70% af kostnaði við sendingar frá Asíuríkjunum eða vanþróuðu ríkjunum, sem eru flokkuð þannig, en það skorti 30% upp í kostnað við sendingar frá Vesturlöndum. Samt var í upphafi talað um eitt gjald, einhvers konar jöfnunargjald. Það breyttist vissulega í meðförum nefndarinnar og það er vel, en það eykur ekki beinlínis traust manns á því að þarna sé búið að ígrunda nákvæmlega hver raunkostnaðurinn er. Við komum þannig aftur að því.

Ég ætla ekki að gera mönnum upp neitt viljaverk en þegar mál eru flókin þá eru ákvarðanir gjarnan ekki alveg á rökum reistar. Við erum einfaldlega svolítið þar með þetta mál. Þess vegna er ég ánægð með þó þessa niðurstöðu sem nefndin nær og þessa breytingartillögu á þessum stutta tíma og ánægðust allra er ég með að stóra málið sé eftir. Ég trúi ekki öðru en að við munum nýta tímann til að fara ofan í kjölinn á þessu og skilja hvað er verið að tala um. Þó að þetta séu ekki stórar upphæðir fyrir hvern og einn þá var líka farið yfir það að þetta eru háar upphæðir fyrir einstaka sendingar og getur skipt sköpum og heildarupphæðin er ansi há, nemur hundruðum milljóna, slagar hátt upp í milljarð ef þetta hefur ekki áhrif til fækkunar sendinga.