149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[19:20]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni málsins, hv. þm. Jóni Gunnarssyni, fyrir yfirferð yfir nefndarálit og breytingartillögu með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu. Einnig vil ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að reifa ýmis álitamál sem upp komu í vinnu nefndarinnar. Í mörgu er ég algjörlega sammála henni þótt ég telji mig á einhverjum sviðum hafa aðra sýn á málin, en það er eitthvað sem við eigum eftir að skýra nánar í vinnu næstu vikna, eins og hún kom inn á.

Ég vil líka þakka góða samvinnu í nefndinni við að draga fram álitamál á stuttum tíma og átta sig á því hvað það er sem raunverulega skiptir mestu máli við afgreiðslu málsins. Ég ætla að fara örstutt í gegnum þau fjögur atriði sem mér finnst skipta mestu máli og mér finnst hafa tekist að ná utan um, alla vega að nokkru leyti, í breytingartillögunni og nefndarálitinu.

Með frumvarpinu er verið að leggja til breytingar á lögum um póstþjónustu til að tryggja að pósturinn geti lagt á gjald sem stendur undir raunkostnaði við að afhenda sendingar sem berast erlendis frá. Þeir sem póstleggja pakka erlendis, hvar sem er í heiminum, borga eitthvert gjald sem á að standa undir því að flytja pakkann milli landa og koma honum til viðtakanda. Það er kallað endastöðvargjald í alþjóðapóstsamningnum. Í upphafi umræðunnar veltum við því dálítið fyrir okkur hvort hugtakið skipti máli. Minn skilningur eftir því sem leið á vinnuna var að það skipti í sjálfu sér engu máli. Það heitir endastöðvargjald í alþjóðapóstsamningnum en í rauninni snýst þetta bara um gjaldtöku sem tryggir að heildarkostnaðinum sé mætt og því skipta hugtökin þar ekki öllu máli.

Ég álít sjálfsagt að sá sem pantar vöru standi undir kostnaðinum við að flytja hana, að sá kostnaður falli ekki á skattgreiðendur sem hugsanlega velja að gera öll vörukaup sín innan lands og borga flutningskostnaðinn í gegnum verslunina. Svo snýst þetta auðvitað líka um samkeppnisaðstöðu íslenskrar verslunar o.fl.

Þetta er einnig risastórt umhverfismál því að fjöldi smásendinga sem flogið er með yfir hálfan hnöttinn skilur eftir sig alveg ótrúlegt kolefnisspor þar sem umbúðirnar eru oft og tíðum miklu umfangsmeiri en varan sjálf. Á tímum þar sem við erum að draga úr sóun og auka nýtni þurfum við ekkert á því dóti að halda, mörgu hverju.

En að þeim fjórum punktum sem ég ætla að fara örstutt yfir.

Í fyrsta lagi þarf að vera alveg á hreinu að upphæð gjaldsins taki mið af því hvaðan sendingin kemur því að í alþjóðapóstsamningnum er það sem sendandi greiðir mismunandi eftir því í hvaða landi varan er póstlögð. Þess vegna verður þetta að vera algerlega gagnsætt í þeirri gjaldskrá sem sett verður á grunni þessarar lagabreytingar.

Í öðru lagi er það gagnsæi í bókhaldi. Þar verðum við að treysta á eftirlitsaðilann, sem er Póst- og fjarskiptastofnun, sem fær miklu nánari aðgang að öllum gögnum og bókhaldi póstsins en alþingismenn eða almenningur geta fengið. Eitt skref sem við stígum í breytingartillögunum hér er að fela Póst- og fjarskiptastofnun að taka út fyrir fram kostnaðargrundvöllinn, grundvöll þeirrar gjaldskrár sem sett verður. Í framhaldinu er afskaplega mikilvægt að Póst- og fjarskiptastofnun sinni því eftirliti að fylgjast með því hvaða áhrif hugsanlegar breytingar sem fylgja í kjölfarið hafa á kostnaðinn og kostnaðargrunninn fyrir gjaldinu.

Í þriðja lagi er það sem snýr að neytandanum. Þegar neytandinn ákveður að eiga viðskipti og panta vöru erlendis frá eða biður einhvern um að senda sér pakka erlendis frá þarf það að liggja algerlega fyrir og vera aðgengilegt neytanda hvað það kostar hann að taka á móti vörunni hér. Hugsanlega verður þetta að vera einhvers konar gagnagrunnur sem hægt er að fletta upp í eftir stærð vöru, hvaðan hún er að koma og öðrum þeim þáttum sem hafa áhrif, alla vega þarf á algjörlega óyggjandi hátt að vera hægt að sjá hvað kostar að taka við vörunni.

Í fjórða lagi er það sem í raun er skýrt í meðförum nefndarinnar, hin skýru lagaskil. Kveðið er alveg skýrt á um að lögin taki gildi 15. maí og það er skýrt að ákvæði laganna gilda um erlendar póstsendingar sem stimplaðar eru með dagstimpli erlendis eftir miðnætti að íslenskum tíma þann dag er lögin taka gildi. Við höfum aðlögunartíma fram að miðjum maí og það er auðvitað mikilvægt að Íslandspóstur nýti þann tíma til að kynna breytingar og setja fram á gagnsæjan hátt upplýsingar til neytenda.

Að lokum langar mig að koma inn á það sem hefur aðeins verið til umræðu í andsvörum, hvort þetta sé varanleg breyting eða ekki. Eftir því sem kom fram fyrir nefndinni er mjög líklegt að það eigi eftir að verða miklar breytingar á póstþjónustu á heimsvísu, m.a. með breytingum á alþjóðapóstsamningum, vegna þess að fleiri og fleiri ríki eru að bregðast við, setja fram athugasemdir við samningana eins og þeir eru og grípa til sambærilegra ráðstafana, ekki nákvæmlega eins ráðstafana en sambærilegra, og hér er verið að gera.

Ég styð frumvarpið eins og það liggur fyrir en tek undir mikilvægi þess að áfram verði unnið með þetta mál og auðvitað kemur það til frekari umfjöllunar við afgreiðslu á því frumvarpi sem liggur fyrir nefndinni að ræða um póstþjónustu.