149. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2019.

lýðskólar.

798. mál
[16:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera á sama stað og allir aðrir sem hafa komið upp í dag og fagna þessu frumvarpi mjög og óska menntamálaráðherra til hamingju með það. Ég geri lítið annað þessa dagana en að óska henni til hamingju með málin hennar.

Ég ætla líka að leyfa mér, hæstv. forseti, að óska Brynhildi Pétursdóttur, fyrrverandi þingmanni, til hamingju með þetta mál. Hún lagði það fram á sínum tíma ásamt okkur öllum sem vorum þá í þingflokki Bjartrar framtíðar en þetta var fyrst og fremst hennar mál. Hún lagði mikið á sig og vildi að það næði framgangi vegna þess að þetta er mjög góð viðbót inn í menntakerfið. Eins og hefur komið fram og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hafa lýðháskólar og lýðskólar verið við lýði á Norðurlöndum í óratíma og eru mjög eftirsóttir og góðir skólar.

Það hefur verið drepið á hlutverk slíkra skóla. Ég tek heils hugar undir að þetta er frábært tækifæri fyrir börn eða unglinga, ungt fólk, að koma saman og búa saman í heimavistarskóla. Mér finnst ótrúlega flott konsept að geta verið í heimavistarskóla þar sem fólk er saman alla daga og þarf að sjá um sig sjálft og læra á lífið. Það vantar svolítið inn í kerfið okkar í dag og inn í nútímann að skólarnir geri það.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi áðan þau markmið sem við þurfum að leggja áherslu á í nútímamenntun og skóla. Verandi kennari finnst mér eitt það mikilvægasta sem við kennum börnum og ungmennum í dag vera góð samskipti. Við lifum á tímum fjölmenningar og margbreytileika mannlífsins og við þurfum að takast á við þetta. Við þurfum að læra umburðarlyndi, eins og tekið er fram, að umbera ólíkar skoðanir, takast á um ólík mál og sætta hluti. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt. Ég held að þessi skóli ætti, eins og auðvitað allir skólar eiga að gera, að leggja höfuðáherslu á að kenna ungmennum hvernig við tökumst á við lífið, hvernig við komum fram hvert við annað. Það er ótrúlega mikilvægt og uppskrift að góðu samfélagi ef samskiptin eru góð. Við erum náttúrlega ekki alltaf sammála, það er ekki þannig, sem er ekki óeðlilegt, en við getum alveg verið ósammála en samt vinir. Mér finnst vanta upp á það. Það er tekið fram hérna að auka þurfi umburðarlyndi og félags- og samskiptahæfni. Það er rosalega mikilvægt.

Ég hlustaði á rektor Háskólans í Reykjavík, ég held að það hafi verið í fyrra, í útvarpsviðtali þar sem hann lagði áherslu á þetta sem eitt það mikilvægasta í skólastarfi í dag, samskiptahæfni nemenda og upplýsingaöflun. Ég á vini í Danmörku sem eiga börn sem hafa farið í svona skóla þar og þau segja að það sé eitt það skemmtilegasta sem þau hafa gert í lífinu, að vera í slíkum skóla þar sem hæfileikar þeirra og langanir og þrár fá að njóta sín fullkomlega.

Mér brá aðeins þegar ég sá að fólk þyrfti að borga skólagjöld. Ég velti fyrir mér hvort það sé fráhrindandi og að þá hafi kannski bara börn efnameiri foreldra tök á að fara í þennan skóla. Ég velti því fyrr mér, ég veit það ekki. Það var nefnt áðan sem við lögðum fram í tillögu okkar, að það yrði opinber stuðningur. Nefndin ræðir það og finnur út úr því hvernig má hafa þetta. Ég veit að í LungA höfðu menn miklar áhyggjur af því að það kostar allt peninga eins og hv. þm. Sigurður Páll Jónsson kom inn á áðan. Það er svo erfitt að lifa í óvissu um framhaldið. Höfum við peninga til að reka skólann? Hvað gerist? Ég held að þetta sé gott upp á að hafa alltaf vissu, að búa við öryggi, vita hvað er að fara að gerast og svo eins með skólagjöldin. Það má kannski finna einhverja fleti á því. Ég treysti fólki í allsherjar- og menntamálanefnd til að finna út úr því og að þessi skóli fái framgang.

Ég tek líka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur hvað varðar vestnorræna samstarfið og nemendur. Ég var í Vestnorræna ráðinu þegar ég starfaði hér sem þingmaður og þá kom það einmitt til umræðu. Bæði Færeyingar og Grænlendingar voru mjög áfram um það að eitthvert samstarf yrði í skólamálum, ekki síst í skólum sem þessum. Ég held að það væri alveg frábært ef við gætum fengið vini okkar og frændur, nánustu nábúa, til að senda börnin sín hingað í skóla. Það myndi gera þá betri og fjölbreyttari. Ég tek undir það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði um að Grænlendingar væru mjög spenntir fyrir því. Við gætum gert margt gott í samskiptum við þessar tvær þjóðir. Það hefur maður reynt.

Til að lengja umræðuna ekki mikið vil ég enn og aftur þakka fyrir frumvarpið. Það er frábært að það skuli vera komið af stað. Mig langar reyndar að nefna í sambandi við Laugarvatn að ég fór sem þingmaður Suðurkjördæmis á fund á Laugarvatni þar sem rædd var hugmyndin í sambandi við Ungmennafélag Íslands þegar verið var að leggja háskólann þar niður og menn voru mjög uggandi um framtíðina. Þetta er náttúrlega frábært svæði til að vera með svona skóla. Ég myndi vilja sjá þetta úti á landi þar sem nemendur fá að njóta þess að vera úti í náttúrunni og kynnast landinu sínu og lifa í samskiptum hver við annan. Það er rosalega mikilvægt. Ég ítreka enn og aftur að þarna myndu nemendur læra góð samskipti. Ég vil leggja höfuðáherslu á það, þótt ég ætli ekki að fara að stjórna því hvernig skólanum er stjórnað, að við lærum góð samskipti og séum góð hvert við annað. Við eigum að vera óhrædd við að tala um það. Við eigum að vera óhrædd við að tala meira um umhyggju og kærleika í íslensku samfélagi, þetta er gott samfélag. Mér finnst vanta upp á að ræða opinskátt um að umhyggja og kærleikur sé lykill að góðu lífi. Eins og stendur í hinni góðu bók, Biblíunni, svíkur kærleikurinn aldrei.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir.