149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

innleiðing þriðja orkupakkans.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að rifja upp ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Nú er ég greinilega ekki svona þéttur aðdáandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þar sem ég man ekki ræðuna, ólíkt hv. þingmanni, en hún hefur vafalaust verið eftirminnileg. Ég vil hins vegar minna hv. þingmann á það, þar sem hann vitnaði til ræðunnar um að með þriðja orkupakkanum færi Ísland undir boðvald samevrópskrar stofnunar, að innleiðing þriðja orkupakkans, sem lögð hefur verið fram af hæstv. utanríkisráðherra, felur einfaldlega í sér að við erum að innleiða tveggja stoða lausn eins og við höfum gert í öðrum málum. Meðan við erum innan EFTA höfum við lagt áherslu á tveggja stoða lausnir, hvort sem það er á sviði fjármálaeftirlits eða orkueftirlits, og það á auðvitað við í þessu máli eins og öðrum.

Síðan vil ég rifja upp, af því að við hv. þingmaður ræddum þau mál um daginn og ræddum þar m.a. greinargerð Stefáns Más Stefánssonar, prófessors emeritus, að hann hefur í kjölfarið séð sig knúinn til að ítreka þá afstöðu sem þar birtist, að sú leið sem lögð er til í þeirri þingsályktunartillögu sem þingið hefur nú til meðferðar felur í sér fyrirvara sem standast fullkomlega þá skoðun að við erum ekki knúin til þess að leggja sæstreng, sem er það sem þetta mál hefur fyrst og fremst snúist um, nema Alþingi taki þá ákvörðun einhvern tímann í framtíðinni að leggja sæstreng og þá fyrst taka þau ákvæði gildi sem eiga við um þetta sameiginlega regluverk.

Ég velti fyrir mér í ljósi orða hv. þingmanns, og hann getur kannski útskýrt það í síðari fyrirspurn ef hann kýs að gera svo, hvort hann telji þá að tveggja stoða lausnir almennt séu ekki ásættanlegar fyrir Ísland innan hins evrópska samstarfs.